153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

fæðingarþjónusta á landsbyggðinni.

[15:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta hér upp. Já, málefnið er mjög brýnt og ég hef klárað allan hringinn, átt samtal við allar heilbrigðisstofnanir og þetta ber mjög á góma auk fjármögnunar og mönnunar í stóra samhenginu. Þetta er sérstaklega viðkvæmt á landsbyggðinni. Húsnæði er mjög stór þáttur í þessu og það þarf að taka tillit til hans. Það þarf að efla samvinnu á milli stofnana. Það þarf líka að nýta tækni og fjarlækningar í þeim greinum sem það er hægt. Einnig þarf að ná saman við sérfræðilækna um að hlaupa undir bagga. Það þarf einhvern veginn að fá allt kerfið til að hlaupa þetta saman.

Síðan eru hvatar sem við þurfum að horfa á, m.a. gagnvart námslánum í Menntasjóði, ekkert ósvipað og Norðmenn hafa gert. Við höfum talað um þetta og erum núna að taka þetta inn í vinnu í ráðuneytinu sem og hvaða fjárhagslegu hvata þess utan við getum tekið inn í þessa vinnu, vegna þess að við verðum að treysta mönnun í öllu kerfinu og ekki síður bregðast við þessari viðkvæmu stöðu sem hefur byggst upp á landsbyggðinni.