Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[15:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Það er mikilvægt að meta hvernig lögin um eitt leyfisbréf hafa reynst. Áherslur laganna eru um að kennarar búi yfir þekkingu og færni til að takast á við framtíðaráskoranir sem blasa við næstu ár og næstu áratugi og að lögin skapi aukinn sveigjanleika fyrir kennara og tækifæri til að auka hæfni sína og færa sig á milli skólastiga, efli starfsþróun kennara og skólastjórnenda, stuðli að auknum gæðum skólastarfs og ýti undir fleiri möguleika á frekari samfellu í námi á milli skólastiga, líkt og málshefjandi benti á.

Áherslan er á starfsöryggi kennara og að með útvíkkuðum starfsréttindum sé horft til þess að aðsókn í kennaranám aukist og að kennarar sem ekki starfa við kennslu snúi til baka. Þetta eru allt fínustu áherslur, herra forseti. Með lögunum er aukin ábyrgð skólastjórnenda við mat á hæfni umsækjenda um kennslustörf. Samkvæmt leiðbeiningum um ráðningar skal tekið tillit til þess hvort umsækjandi hafi næga sérþekkingu eða hæfni í mannlegum samskiptum, svo dæmi séu tekin. Góður kennari þarf að sjálfsögðu að hafa góð tök á því námsefni sem hann er að kenna, en það eitt og sér dugar ekki til. Það er ekki síður mikilvægt að kennarar hafi næga þekkingu í uppeldisfræðum. Kennari þarf að mæta nemendum þar sem þau eru stödd og að vera fær um að leiðbeina þeim til aukins þroska og út frá þeim styrkleikum sem þau búa yfir og finna leiðir til að styrkja þá þætti sem nemandi á í erfiðleikum með. Góður kennari þarf að geta unnið með öðrum kennurum að því markmiði að koma öllum börnum til nokkurs þroska þannig að enginn verði út undan og að framhaldsskólanámi loknu standi ungmennin í það minnsta jafnfætis erlendum jafnöldrum sínum. Kennaramenntunin, starfsréttindi og starfskjör þurfa að endurspegla þetta stóra verkefni.