Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[16:19]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að ítreka áskorun mína til hæstv. ráðherra um að skoða styttingu leikskólakennaranáms. Það er gríðarlega mikilvægt atriði og grundvallaratriði að leikskólakennarar í landinu séu með nauðsynlega grunnmenntun og séu ekki án menntunar. Ég tel sjálfur, og ég hef talað um það við fræðimenn og skólafólk, að fimm ára nám til leikskólakennara sé einfaldlega of langur tími. Það er miklu betra að hafa það þriggja ára nám svo að við fáum fleira menntað fólk í stéttina heldur en að hafa það fimm ára nám og fá færri. Hér er um grundvallaratriði að ræða. Ég tel líka að það sé gríðarlega mikilvægt að það sé almenn umræða í samfélaginu um menntun barnanna okkar og það á breiðum grundvelli og um stöðu kennara og menntun kennara. Ég er sjálfur með tillögu til þingsályktunar um lestrarkennslu og hef fundið fyrir miklum áhuga á því máli, m.a. í blaðaskrifum og öðru. Góður kennari getur haft gríðarleg áhrif á börnin okkar.

Varðandi löggjöfina eins og hún er í dag vil ég taka undir með hv. þm. Orra Páli Jóhannssyni um að það sé kannski kominn tími á formlega úttekt á því hvernig til hefur tekist svo að við fáum upplýsingar um það hvernig þetta kerfi með eitt leyfisbréf gangi og hver árangurinn sé. Þegar ég skoða lögin þá velti ég því fyrir mér hvort ekki væri rétt að hafa lagagrein um hæfniskröfurnar, um starfsþróunina og um það að ríkið standi fyrir tilboðum eða skólar landsins séu með tilboð um símenntun fyrir kennara. Ég tel að það að vera kennari krefjist ákveðinnar símenntunar og það að fá að þróast í starfi er gríðarlega mikilvægt og að geta farið á milli skólastiga eins og kennarar óska sér. Allir eiga að fá að njóta sín í starfi, ekki festast á ákveðnu skólastigi sem þeir kannski vilja ekki vera á. Ég tel að það kalli á ákveðna endurskoðun á lögunum að bæta þessu atriði inn, en ekki bara hafa þetta um eitt leyfisbréf og svo búið.

Í 12. gr. er fjallað um ráðningar og annað slíkt (Forseti hringir.) og þar segir að til að kennari sé ráðinn þurfi hann að hafa þá sérhæfingu sem tilgreind er í auglýsingu. (Forseti hringir.) Það þyrfti kannski að standa eitthvað nánar um sérfræðiþekkinguna og nánar um þá menntun sem stuðlar að þeirri sérhæfingu.