154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

450. mál
[15:54]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna á þessu máli sem ég tel vera mikilvægt. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það sem kom fram í máli hans, ef ég skildi hann rétt, að væru þessar reglur í gildi sem núna er verið að leggja til þá myndu 48 hafa fengið fullan styrk en 19 lægri styrk. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki efni til þess að auka fjármagn til þessa málaflokks, til styrkveitinganna, og líka þá kannski að einfalda umsóknarkerfið þannig að það nái betur til minni umsækjenda og það sé auðveldara fyrir þá að sækja um. Það væri líka fróðlegt að fá að vita það hvaða landsvæði eru að fá mestan styrk, hvaða svæði það séu á landinu, hvort hann sé með tölur yfir það. Eru það Vestfirðir og norðausturhornið, allra dreifbýlustu svæðin sem fá minnstan styrk? Ég fann því miður ekki skýrsluna sem hann minntist á í framsögu sinni en vil spyrja hvort þetta hafi skilað miklum ábata til þeirra svæða sem hafa fengið mesta styrki og hver þau svæði séu.