154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

450. mál
[15:57]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Já, vissulega á ég sæti í fjárlaganefnd en ég tel að ef aukin framlög færu í þennan málaflokk, sem er mikilvægur til jöfnunar búsetu og atvinnu í landinu, þá myndi það ekki auka verðbólgu. Ég tel að þessum peningi sé vel varið til þessara dreifðu byggða og minni hæstv. ráðherra á atvinnuuppbygginguna sem hefur átt sér stað t.d. á Vestfjörðum, í laxeldi, og ég tala nú ekki um stöðu bænda í hinum dreifðu byggðum. Ég tel að hlutverk Framsóknarflokksins sé ekki síst mikilvægt til að rétta þá stöðu. Ég held því að það mætti skoða það að auka fjárframlög í þennan málaflokk. Ég þarf greinilega að finna út hvar þessi skýrsla er, hvar hana er að finna svo ég geti skoðað þetta nánar, sérstaklega hvað varðar mitt kjördæmi. En gæti hæstv. ráðherra upplýst þingheim um það í hvaða atvinnuvegi þessir styrkir fara; fara þeir mest til landbúnaðar og sjávarútvegs? Hvaða atvinnuvegir eru að njóta þessa best og framleiðendur á hvaða sviðum njóta best þessara styrkja? Eru kannski einhver tækifæri fyrir enn frekari atvinnuuppbyggingu með þessari leið, að auka svæðisbundna flutningsjöfnun þannig að það bæti lífskjör í öllu landinu?