154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir ágæta ræðu og hvatningu til okkar í Samfylkingunni um að halda þessu striki. Það er ýmislegt rétt sem fram hefur komið hér en mig langar kannski til að nefna sérstaklega niðurfellingu á námslánunum. Ég ræddi þetta við fjöldann allan af einstaklingum sem vinna á heilsugæslustöðvum úti á landi og á flestum þessum stöðum, nema það hafi verið eitthvert samkomulag sem ég vissi ekki af og var ekki minnst á í samtali okkar, var fólk komið þarna inn á einhvers konar niðurfellingu. Það liggur alveg fyrir að þetta hefur a.m.k. ekki komist almennilega í framkvæmd eða er ekki mikið um það talað. Einhvers staðar er pottur brotinn í því. Ég efast ekki um þessa breytingu sem átti sér stað á menntasjóðslögunum, en það liggur alveg fyrir að af einhverri ástæðu þá er þetta ekki að nýtast sem skyldi vegna þess að fólk nefndi þetta sérstaklega að fyrra bragði á öllum þessum heilsugæslustöðvum. Eitthvert samskiptaleysi er þarna í gangi, kannski er þetta bara rétt að fara af stað, en það er síðan allt annað mál. En ég held að það liggi alveg fyrir að þetta gæti reynst mjög vel.

Mig langar samt að spyrja hv. þingmann um þá efnahags- og velferðarstefnu sem þarf að undirbyggja framgang svona máls. Fyrst það er svo margt sem hún getur tekið undir, hver telur hún að sé helsta ástæðan fyrir því að sú staða er uppi núna í heilbrigðiskerfinu sem oft hefur verið talað um, þ.e. það vantar enn þá þessa lækna, það vantar enn þá þetta starfsfólk? Það hefur illa gengið að koma þessum verkefnum áfram, sumum hverjum. Telur hún að meira fjármagn þurfi að koma til í heilbrigðiskerfið eins og sakir standa?