154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[17:10]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir sitt innlegg. Ég er á því að ef við eigum ekki til nægar vatnsbirgðir á Íslandi til að svala þorsta, eðlilegum, þá verðum við að fara að flytja inn vatn. Ef það eru ekki til læknar og hjúkrunarfólk til að sinna þeim mikilvægu störfum sem hér eru ómönnuð þá þarf að flytja það inn þangað til við þjálfum þetta fólk upp sem við vildum auðvitað helst geta gert með einum eða öðrum hætti. Það hvernig læknadeildin hefur verið að senda fólk í þriggja ára leiðangra til að komast inn í deildina, fella það á fyrsta ári og svo aftur jafnvel og aftur í þriðja skipti er náttúrlega bara til þess að draga úr mætti, krafti og fjármagni, sem mögulega gæti verið að skila okkur prýðilegu fólki. Það er allt of mörg dæmi um það að menn þurfi að fara þrisvar sinnum í fyrsta árs prófin sem innibera alls kyns svona almennan fróðleik um hitt og þetta, eins og þetta sé einhvers konar spurningakeppni, Gettu betur eða eitthvað svoleiðis. Af almennum fróðleiksskorti er mönnum meinað að halda áfram í náminu. Það er verið að sía út þegar akkúrat þyrfti að vera að hvetja fólk til að halda áfram. Hvernig komum við síðan fólki í starfsþjálfun? Það má þá skipta slíku fólki eftir atvikum inn á völlinn eða senda það í starfsþjálfun eitthvert annað í millitíðinni. Þetta er bara verkefni til að leysa. Það er ekkert í vegi fyrir því að laga þetta mál. Ef mér yrði falið þetta væri ég búinn að lækna þetta á nokkrum mánuðum, ég fullyrði það.