133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps fyrir 2. umr.

[15:06]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem hv. þm. Jón Bjarnason kemur upp í ræðustól Alþingis til að ræða á opnum umræðuvettvangi störf fjárlaganefndar sem ég hef talið að hafi gengið ágætlega á þessu hausti. Eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi áðan er hér um að ræða mál sem eru ekki ný af nálinni. Það hefur legið fyrir í mjög langan tíma að ríkisstjórnarmeirihlutinn á þingi vildi kaupa hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarkaupstaðar í Landsvirkjun. Það hefur engum dulist.

Nú var það afgreitt í síðustu viku af hálfu meiri hluta nefndarinnar að fara í það að kaupa þennan eignarhlut. Ég dreg ekkert úr því að sjálfstæði nefndarinnar er algjört frumskilyrði í þeirri vinnu sem fram undan er. Beiðni kom fram frá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar í nefndinni um að fá að sjá þann kaupsamning sem á að gera milli Akureyrarkaupstaðar, Reykjavíkurborgar og ríkisins. Við munum kalla eftir því, við munum fá að sjá þann kaupsamning í þeirri vinnu sem fram undan er. Hér er verið að afgreiða mál til 2. umr. fjáraukalaga og sú 3. er eftir og við munum fara ofan í þennan kaupsamning á milli umræðna.

Í öðru lagi er hér um að ræða 87 milljarða kr. lán til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans sem hefur verið unnið að í ágætri samvinnu milli Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytisins. Við getum fengið upplýsingar um hvað liggur þar að baki en að sjálfsögðu treystum við þeim ágætu fræðimönnum sem í Seðlabankanum starfa og í fjármálaráðuneytinu. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að við fáum upplýsingar um þessi gögn og því er í raun og veru óskiljanlegt af hverju hv. þm. Jón Bjarnason kemur hér upp og reynir að gera moldviðri úr þessu öllu saman. Við eigum eftir að fara ofan í þessi mál í hv. fjárlaganefnd og vonandi í góðri samvinnu.