133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

upplýsingalög.

296. mál
[15:25]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi ríkisstjórnarinnar til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 50/1996. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en varð þá ekki útrætt og er því lagt fram að nýju óbreytt.

Frumvarp þetta er samið í því skyni að auka möguleika fyrirtækja og einkaaðila á að endurnota upplýsingar frá hinu opinbera og gera þeim kleift að hagnýta þær til virðisaukandi starfsemi. Einnig eru með frumvarpinu uppfylltar skyldur íslenska ríkisins samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 8. júlí 2005, um að fella tilskipun 2003/98/EB um endurnot opinberra upplýsinga inn í IX. viðauka við EES-samninginn. Frumvarpið gengur þó að hluta til lengra en tilskipun ESB með víðtækari stefnumótun um endurnot opinberra upplýsinga sem m.a. felur í sér þrengri gjaldtökuheimildir af upplýsingum úr opinberum skrám. Einnig er kveðið á um að ríkið taki ekki gjald af höfundarétti sínum af þessum upplýsingum. Er þetta til þess gert að reyna að auka enn frekar endurnot opinberra upplýsinga.

Frumvarpið er samið af starfshópi sem forsætisráðherra skipaði í september 2003 undir formennsku Halldórs Árnasonar, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu.

Starfshópurinn fékk þá dr. Pál Hreinsson lagaprófessor og Kristján Andra Stefánsson, fyrrverandi skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, til liðs við sig við samningu lagafrumvarpsins. Enn fremur fékk starfshópurinn Jón Vilberg Guðjónsson, lögfræðing í menntamálaráðuneytinu, til að gera athugun á eignarhaldi ráðuneyta og stofnana á gögnum og upplýsingum og þeim takmörkunum sem endurnýting opinberra upplýsinga kann að vera háð vegna höfundaréttar þriðja aðila að gögnum eða hluta þeirra.

Starfshópurinn skilaði sameiginlegri niðurstöðu og lagði til að stefnumörkun um endurnot á opinberum upplýsingum yrði felld inn í upplýsingalögin, nr. 50/1996, sem sérstakur kafli. Það lagafrumvarp sem ég mæli nú fyrir er óbreytt niðurstaða starfshópsins.

Stefnumörkun stjórnvalda sem fram kemur í þessu frumvarpi er byggð á þeirri forsendu að miklir möguleikar geti verið fólgnir í að skapa ný verðmæti úr upplýsingum sem eru í vörslu stjórnvalda, t.d. með því að tengja þær við aðrar upplýsingar og búa þannig til nýjar afurðir.

Eftirspurn eftir opinberum upplýsingum til endurnotkunar hefur alltaf verið nokkur og fer vaxandi. Markmiðið er því að setja samræmdar lágmarksreglur um heimil endurnot þeirra opinberu upplýsinga sem almenningur á rétt til aðgangs að. Þegar upplýsingar eru varðveittar á rafrænu formi skal aðili geta valið á milli þess að fá aðgang að þeim á því formi eða prentaðar á pappír. Stjórnvöld skulu birta á heimasíðum sínum lista yfir þær skrár sem hafa að geyma upplýsingar í þeirra vörslu sem heimilt er að endurnota, svo og upplýsingar um þau skilyrði sem endurnotin eru bundin.

Sú stefnumörkun sem fram kemur í þessu frumvarpi leggur áherslu á hóflega verðlagningu á opinberum upplýsingum. Telji stjórnvald gjaldtöku nauðsynlega megi gjaldið að hámarki nema kostnaðinum við að afhenda, afrita eða dreifa upplýsingunum auk hóflegra afskrifta. Almennt skuli því ekki taka gjald fyrir söfnun eða framleiðslu gagna sem safnað er í opinberum tilgangi af stjórnvöldum. Þá leiðir einnig af þessari stefnumörkun að hið opinbera taki almennt ekki sérstaka þóknun fyrir endurnot á upplýsingum sem hið opinbera kann að eiga ýmist höfundarétt að eða rétt skv. 50. gr. höfundalaga. Eigi þriðji maður jafnframt réttindi yfir gögnunum samkvæmt höfundalögum falla gögnin utan við gildissvið þessa frumvarps.

Hlutaðeigandi stjórnvald skal setja sér gjaldskrá fyrir að veita aðgang að upplýsingum eða gögnum til endurnota fyrir einkaaðila sem ráðherra staðfestir. Gjaldskrána skal birta í B-deild Stjórnartíðinda auk þess sem hún skal vera aðgengileg á heimasíðu stjórnvaldsins.

Vakin er athygli á því að sérlög og reglugerðir um verkefni ákveðinna stofnana veita nú rýmri heimildir til gjaldtöku fyrir upplýsingar úr opinberum skrám en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Má þar nefna Fasteignamat ríkisins, Landmælingar Íslands og fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Þetta frumvarp haggar ekki þessum lagaákvæðum. Það er því í verkahring viðkomandi ráðuneytis að fara yfir þau ákvæði og leggja til nauðsynlegar breytingar sem samræmast anda þeirrar stefnumörkunar sem fram kemur í þessu frumvarpi.

Endurnot opinberra upplýsinga eru þó ekki leyfileg með hvaða hætti sem er. Ekki má endurnota þær þannig að það fari í bága við önnur lög eða réttindi þriðja manns. Engin einhlít regla gildir um höfundarétt að verkum sem kunna að falla undir endurnýtingarheimild frumvarpsins.

Meginregla höfundalaga er sú að höfundur verks er eigandi þess. Það ræðst af sambandi starfsmanns og atvinnurekanda hvort og með hvaða hætti höfundaréttur að verki, sem unnið er í þágu atvinnurekanda, yfirfærist frá starfsmanni til atvinnurekanda. Að lágmarki verður þó að ætla að stofnun öðlist óheftan nýtingarrétt á þeim verkum sem starfsmenn stofnunar hafa skilað af sér. Þannig má t.d. ætla að höfundaréttur að greinum, skýrslum, ljósmyndum og þess háttar efni sem starfsmaður hefur gagngert unnið að til birtingar á vegum stofnunar yfirfærist til hennar, að svo miklu leyti sem slíkt er stofnuninni nauðsynlegt til starfsemi sinnar.

Ákvæði í kaflanum um endurnot opinberra upplýsinga sem hér er mælt fyrir tekur til stofnana ríkis og sveitarfélaga og annarra opinberra aðila samkvæmt nánari skilgreiningu sem þar er að finna. Þó ná ákvæðin ekki til Ríkisútvarpsins, skóla, bóka og skjalasafna, rannsóknastofnana og menningarstofnana. Er það í samræmi við fyrrnefnda tilskipun Evrópusambandsins um endurnot opinberra upplýsinga.

Í 1. og 2. gr. frumvarpsins er kveðið skýrar en í gildandi upplýsingalögum á um afmörkun á upplýsingarétti almennings til samræmis við það sem lá að baki setningu laganna. Er það gert til að taka af allan vafa sem komið hefur upp við framkvæmd laganna, annars vegar með að tiltaka að þau gögn sem stjórnvöldum er skylt að veita almenningi aðgang að taki einvörðungu til fyrirliggjandi gagna í vörslu stjórnvalda og hins vegar með því að taka upp sérstakt ákvæði um að á stjórnvöld verði ekki lögð skylda til að útbúa ný gögn sérstaklega til að verða við beiðni.

Frú forseti. Ég hef í stuttu máli farið yfir þau áhersluatriði sem fram koma í frumvarpi til laga um breytingu á upplýsingalögum og snúa að mestu að innleiðingu nýrra ákvæða um að heimila þriðja aðila endurnot af opinberum upplýsingum í virðisaukandi starfsemi.

Ég leyfi mér að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessar umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar þingsins.