139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[16:49]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra fyrr í haust lagði ég áherslu á nokkur atriði. Ég lagði áherslu á að við mundum útrýma hinu svokallaða flokksræði sem ég tel vera eina af undirrót þess vanda sem Íslendingar glíma við. Ég tel líka að það sé hluti af því að Alþingi nýtur jafnlítillar virðingar og raun ber vitni, 7% þjóðarinnar treysta Alþingi sem er skelfileg niðurstaða. Ég lagði líka áherslu á að við mundum auka lýðræði á hvaða hátt sem er, talaði fyrir persónukjöri í þeim efnum. Benti í þriðja lagi á að við mundum leggja áherslu á rökræðuna frekar en kappræðuna í sölum Alþingis sem og í fjölmiðlum landsins þannig að fólk sem fylgdist með þyrfti ekki að velkjast í vafa um hverjar áherslur manna væru. Ég hefði mátt bæta við þessa ræðu að við, þingmenn og þingheimur, verðum að leggja fram tillögur og ályktanir á réttum forsendum. Það er meginástæða þess að ég styð ekki það aðildarferli sem nú er í gangi. Ég tel að það sé einfaldlega ekki á réttum forsendum.

Þegar greidd voru atkvæði um tillöguna, hvort við ættum að sækja um aðild að Evrópusambandinu, féllu atkvæði þannig að 33 þingmenn sögðu já, 28 sögðu nei en tveir þingmenn greiddu ekki atkvæði. Í atkvæðaskýringum sumra þingmanna komu fram efasemdir og jafnvel bein andstaða við að Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu. Síðan þegar við bætist að við erum ekki að sækja um aðild á jafnréttisgrundvelli, eins og gefið var í skyn, held ég að sanngjarnt sé og eðlilegt að við endurskoðum ákvörðunina, að Alþingi endurskoði fyrri ákvörðun sína og við samþykkjum hér að þjóðin segi hug sinn um hvort við eigum að halda þessum leik áfram.

Ég vona að þessi ágæta þingsályktunartillaga komist í gegnum nefndir og til síðari umr. og við fjöllum um hana hér að nýju og fáum að greiða um hana atkvæði. Ég spurði hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur hvort hún væri reiðubúin að liðka til fyrir málinu og hvort hægt væri að klára það úr nefnd. Ég gat ekki skilið hana betur en hún segðist alltaf mundu greiða atkvæði gegn tillögunni, líka í nefnd. Ég skildi hv. þingmann þannig. Ég vil benda á að þegar málið kemst til umræðu í nefnd er ekki greitt atkvæði um málið sjálft, það er einfaldlega verið að greiða atkvæði um hvort málið sé tækt til þinglegrar meðferðar. Mér finnst þau ummæli skjóta skökku við vegna þess að hún lýsti því yfir áðan að ef meiri hluti þjóðarinnar segði nei mundi hún líka segja nei í sölum Alþingis, jafnvel þó að stjórnarskráin segi til um að hún skuli ávallt að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni.

Það er akkúrat þetta sem við glímum við, við glímum við tvískinnung, við glímum við ómálefnalega umræðu að mínu mati og við greiðum atkvæði eða ræðum hér að flokksræðinu verði kastað fyrir róða, hver og einn þingmaður fái að kjósa, meiri hlutinn fái að ráða, þannig að við getum sagt við þjóðina að á Alþingi gildi raunverulegt lýðræði. Ég held að það sé aðalatriðið.

Ég gerði mér vonir um þegar málið kæmi til umræðu að rökræðan yrði ráðandi, okkur mundi takast að komast upp úr hinum pólitísku hjólförum og við gætum rætt málin á jafnréttisgrundvelli þannig að öll sjónarmið fengju að njóta sín. Nú hefur Evrópusambandið hins vegar gefið út að það ætli að leggja háar fjárhæðir í beinan áróður fyrir því að Ísland gangi þar inn. Mér finnst þetta ósanngjarnt, virðulegi forseti. Mér finnst þetta afar ósanngjarnt og ég harma að stjórnarþingmenn, margir hverjir, sem hafa talað fyrir lýðræði skuli ekki koma fram og taka undir með okkur hinum sem leggjum til að þeir fjármunir sem ESB ætlar að leggja í áróðurinn fyrir inngöngu verði jafnframt nýttir í þá sem eru andsnúnir hugmyndinni og reiðubúnir að berjast fyrir því.

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að Evrópusambandið skuli nú þegar greiða háar fjárhæðir til að kanna hug fólks, kalla fólk frá landsbyggðinni til Reykjavíkur og krefjast þess að koma inn á heimili fólks í staðinn fyrir að gera könnunina í gegnum síma.

Þessi rökræða á sér líka aðra birtingarmynd. Nú hefur verið skýrt frá því hér að ESB líti sjálft svo á að Íslendingar séu í svokölluðu aðlögunarferli. Þetta kemur mjög skýrt fram í því efni sem Evrópusambandið hefur gefið frá sér, mjög skýrt. Engu að síður kemur hæstv. utanríkisráðherra í sífellu fram í fjölmiðlum gagnrýnislaust og fullyrðir að svo sé ekki. Samt stendur svart á hvítu að um sé að ræða aðlögunarferli. Evrópusambandið sjálft lítur svo á að um sé að ræða aðlögunarferli.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fór ágætlega yfir það af hverju þessu var breytt innan Evrópusambandsins. Það var vegna þess að Austur-Evrópuþjóðirnar voru einfaldlega með það vanbúna stjórnsýslu að þær þurftu að laga sig að Evrópusambandinu. Þær breytingar urðu árið 1995. Það verður líka að taka fram að ein af ástæðunum fyrir því að Norðmenn vildu ekki ganga í Evrópusambandið var sú að þeir vildu ekki gjörbreyta stjórnsýslukerfinu hjá sér. Það lá fyrir á þeim tíma að ef Norðmenn gengju í Evrópusambandið þyrftu þeir að umbylta stjórnsýslu sinni. Þeir voru ekki í sömu stöðu og Austur-Evrópuþjóðirnar. Þeir þurftu í rauninni að færa stjórnsýslu sína niður á lægra plan, plan Evrópusambandsins. Evrópusambandið ætlaði heldur betur að bregðast við því og nú þarf þetta allt að gerast fyrir fram. Það er akkúrat það sem við stöndum frammi fyrir nú. Þess vegna erum við að ræða í sífellu hér í sölum Alþingis undarlegar breytingar á stjórnsýslunni, einhvers konar bandorma sem eru illa rökstuddir og í rauninni sér enginn hagkvæmnina í og alls kostar óvíst hvort henti hagsmunum Íslands.

Ég held að við þurfum á einn eða annan hátt að koma umræðunni á hærra plan. Við þurfum að leyfa báðum sjónarmiðunum eða öllum að njóta sín. Ég vil benda á að þeir sem voru fylgjandi aðild Norðmanna á sínum tíma voru það heiðarlegir í umræðunni að þeir voru reiðubúnir að viðurkenna að ef Norðmenn gengju í Evrópusambandið mundi það stórskaða landbúnaðinn og sjávarútveginn. Það var bara viðurkennt, það lá fyrir.

Ég held að við séum komin á þann stað núna að við ættum að gera slíkt hið sama, færa umræðuna á hærra plan og viðurkenna að ef Ísland gengur í Evrópusambandið bitnar það á landbúnaðinum og sjávarútveginum, (Gripið fram í.) grunnstoðum íslensks samfélags. Við þurfum líka að spyrja okkur: Hentar Íslendingum að taka upp evruna? Getur verið að evrunni fylgi atvinnuleysi? Það segja hagfræðingar úr Háskóla Íslands sem þó eru fylgjandi því að ganga í Evrópusambandið. Atvinnuleysi! Það er akkúrat það sem ég óttast, virðulegi forseti. Ég óttast (Forseti hringir.) að við séum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið á (Forseti hringir.) fölskum og röngum forsendum til þess eins að hér verði mikið og (Forseti hringir.) viðvarandi atvinnuleysi.