140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

sala hlutafjár og hlutafjárlög.

[10:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þann 1. nóvember var tilkynnt á mbl.is að Hagar ætluðu á markað í desember. Hagar er mjög stórt fyrirtæki sem rekur m.a. Bónus og Hagkaup. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann ráðleggi mér að kaupa í því fyrirtæki.

Þannig var mál með vexti að árin 1990 og 1991 keypti ég í nýsköpunarfyrirtæki sem hét Sæplast á Dalvík. Nokkrum árum seinna átti ég allt í einu í Atorku. Það gerðist eitthvað á bak við sem ég vissi ekki hvað var. Árið 2008 hvarf Atorka. Það voru 7,5 milljónir sem ég lagði fram árið 1990, sennilega andvirði tveggja jeppa, þeir hurfu, og skattinum kemur það ekkert við en hann er að rukka mig fyrir fjármagnstekjuskatt á sama tíma og ég er að tapa þarna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur einhverju verið breytt í hlutafjárlögum eða ársreikningalögum sem segir mér að fyrirtæki verði ekki holað að innan, eins og gerðist með Sæplast sem var nýsköpunarfyrirtæki? Ég fullyrði að ekkert hefur verið gert. Það hefur ýmislegt verið gert til að laga, en þegar fyrirtæki mynda keðjur, þrjár, fjórar eða fimm og sumir hlutar keðjunnar eru á Tortóla eða í Lúxemborg, þar sem engar upplýsingar fást, leika menn þann leik að láta peninga fara í hring og eignin mín hverfur.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra aftur: Ráðleggur hann mér að kaupa í Högum?