143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég er sammála hv. þingmanni um það, ef við vitum tilefnið ættum við að geta sest yfir málið. Ef tilefnið er hins vegar, eins og þingmaðurinn lætur að liggja, að það snúist um það að sérstaka verndunar- og varúðarreglan sé þyrnir í augum Samtaka atvinnulífsins og annarra framkvæmdaraðila og þar sé hinn raunverulegi mótor sem rekur hæstv. ráðherra áfram er spurning hvort þar liggi skýringin á því að nýtt frumvarp til náttúruverndarlaga er ekki á þingmálaskrá ráðherrans og að vinna að endurskoðun laganna hefur ekki hafist frá kosningum, hvorki að hluta né í heild.

Úr því að tíminn hefur ekki verið sérstaklega vel notaður frá kosningum, nú er komið hartnær hálft ár, og við vitum ekki enn þá almennilega tilefnið, við höfum ekki fengið það fram, velti ég fyrir mér hvort þingmaðurinn sjái einhvern flöt á því, (Forseti hringir.) bara alveg í fúlustu alvöru, að stíga einhver skref í áttina að því að finna sameiginlegan flöt, þótt ekki sé nema samræðugrundvöll.