143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp sem lætur lítið yfir sér með tvær lagagreinar. Sú fyrri, 1. gr., hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lög um náttúruvernd, nr. 60/2013, sem taka áttu gildi 1. apríl 2014, falla brott.“

Og 2. gr., með leyfi forseta:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frumvarpið lætur sem sagt lætur lítið yfir sér eins og ég sagði en það boðar stór tíðindi og miklar breytingar. Það er ágætt að muna eftir því að þegar við samþykktum lögin í þessum sal, fyrr á þessu ári, voru 38 þingmenn fylgjandi lagasetningunni. Hvort þeir voru allir mættir í atkvæðagreiðslu ætla ég að láta öðrum eftir að fletta upp en það voru 38 þingmenn sem voru þessu fylgjandi, jafn margir og eru nú í stjórnarmeirihlutanum og hleyptu þessu litla frumvarpi hér í gegnum þingflokkana sína. Ég vona að þeir 38 þingmenn sem vilja hafa að engu meirihlutavilja Alþingis frá því fyrr í vor geri sér grein fyrir því hvað í þessu frumvarpi felst og hvernig þeir troða með því á nýsamþykktum lögum Alþingis.

Satt best að segja vekur ýmislegt í meðferð nýrrar ríkisstjórnar á valdi smá óþægindi, m.a. þessi dálítið fruntalega leið til þess að nema úr gildi lög sem henni mislíkuðu á fyrra tímabili. Annað dæmi er að það þykir sjálfsagt að þingmaður sé í starfi bæði fyrir löggjafarsamkunduna og framkvæmdarvaldið og lúti boðvaldi ráðherra. Ég hvet það fjölmarga fólk sem er í stjórnarmeirihlutanum, margt af því vel gert fólk, að íhuga þetta vandlega í ljósi stöðu sinnar hér sem löggjafi á Alþingi.

Varðandi þetta mál, náttúruvernd, þá er það eitt af fjórum merkum málum á sviði umhverfis- og náttúruverndar sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kom til leiðar á síðasta kjörtímabili. Það var mikil eindrægni í stjórnarflokkunum um þessi mál. Það var mikil ánægja með þetta meðal náttúru- og umhverfisverndarfólks sem er vaxandi hópur á Íslandi, það er raunar vaxandi hópur um allan heim eins og sjá má á fjölmörgum fjöldasamtökum fólks sem hefur áhuga og áhyggjur af stöðu umhverfis- og loftslagsmála í heiminum. Þessi fjögur mál voru borin uppi af fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, sem stóð sig frábærlega og mun fara í sögubækurnar fyrir það að hafa af mikilli þrautseigju náð hér í gegn mikilvægum málum. Á undan henni höfðu ýmsir umhverfisráðherrar, þar á meðal Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, unnið að mörgum þessum málum. Ég vil einnig nefna fyrrverandi hv. þm. Mörð Árnason sem vann í þessum málum í þinginu af miklu harðfylgi en leitaði sátta. Hann var mjög samningsfús og opinn og vann í nánu samráði við umhverfisráðherra að því að leita leiða til að koma þessum málum í höfn.

Það er gott fyrir þá sem eru frekar nýir hér í þinginu að gera sér grein fyrir þeim breytingum sem gerðar voru hér á fjórum síðustu árum á sviði umhverfis- og náttúruverndar og því ætla ég að fara yfir söguna með þingheimi. Gerð var rammaáætlun um nýtingu og vernd orkuauðlinda. Þar lá margra ára vinna að baki og margir sem komu að þeirri vinnu. Hún fór hér í gegn en núverandi hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hefur margítrekað haldið því fram að þar hafi átt sér stað einhver pólitískur hráskinnaleikur og hann ætli nú ekki endilega að fara eftir því og ætli því að breyta henni. Það er ágætt að rifja það upp hér að hæstv. forsætisráðherra var varla sestur í forsæti ríkisstjórnarinnar þegar hann sagði að hann tæki nú ekki mikið mark á umsögnum um þau mál því að þær hefðu verið mikið til samhljóða. Það kallaði á mótmæli náttúruverndarfólks strax á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar, fólks á öllum aldri og úr öllum þjóðfélagshópum sem safnaðist saman fyrir framan forsætisráðuneytið til þess að mótmæla þessum ótrúlega dónaskap gagnvart umsögnum almennings, sem sendir inn umsagnir því að hann vill hugsa um almannahagsmuni og um vernd náttúrunnar til langs tíma. Náttúruvernd er nefnilega langtímaverkefni og hefur ekki endilega sömu fjármuni til að spila úr og umgjörð til þess að fjalla um þessi mál og þeir sem eiga hagsmuna að gæta í því að þeir fái að nýta náttúruna og umhverfið eins og þeim þóknast. Þetta var rammaáætlun. Svona hefur ný ríkisstjórn umgengist hana.

Þá komum við að náttúruverndarlögunum og hafa aðrir þingmenn farið hér yfir sögu þeirra en ég ætla að rifja hana upp. Við eigum að muna hana því að það er óþolandi að ráðherra eða aðrir í þessum sal leyfi sér að segja að það hafi verið einhver fljótaskrift á þessari lagasetningu og ónógt samráð. Það er lygi og ég ætla að taka þátt í því að leiðrétta þá lygi.

Þegar nýr umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, setti af stað vinnu við hvítbók árið 2009 hófst umfangsmikil vinna sem tók um tvö ár. Ég hef ekki tíma hér til þess að segja frá niðurstöðum þeirrar vinnu en þær má finna í 477 blaðsíðna skjali. Í lok þeirrar vinnu hófst smíði lagafrumvarps og var það lagt hér fram í nóvember 2012. Þá tók við vinna í þinginu sem fyrrverandi hv. þingmaður Mörður Árnason leiddi, við það að sætta þau ólíku sjónarmið sem fram komu. Eins og gengur þá eru margir sem hafa skoðun á náttúruvernd, margir sem hafa hagsmuni af því hvers konar lög eru sett um náttúruvernd. Ber almennt að fagna því og líta á það sem jákvætt að sem flestir hafi skoðun á þessum mikilvæga málaflokki.

Það ferðalag endaði með því að hér voru samþykkt lög rétt fyrir kosningar en eftir látlaust málþóf frá stjórnarandstöðu var gengið til samninga og gildistöku laganna frestað. Það má reyndar segja að það virðist nú ekki vera unnið hratt á stjórnarheimilinu nema ef færa þarf hlutina í fyrra horf. Það er nú einna helst að það hreyfi við blóðinu í mönnum í ríkisstjórninni. En hefði þeim verið raunveruleg alvara með að vilja lagfæra lögin með einhverjum hætti hafa þeir nú þegar haft hálft ár til þess að vinna í því og hefðu haft hálft ár til viðbótar. Það er frekar furðulegt að ekki hafi verið reynt til þrautar varðandi það hvort ekki sé hægt að gera þó einhverjar breytingar ef nýju lögin mæta ekki fyllilega þörfum allra.

Þetta var annað málið frá síðustu ríkisstjórn af þeim fjórum málum sem mig langar að nefna. Ég er búin að tala um rammaáætlun sem nýir ráðherrar hafa verið með furðulegar yfirlýsingar um og þetta voru náttúruverndarlögin. Þá erum við með aðra löggjöf sem er viðskiptakerfi um losunarheimildir. Því var komið hér á, það var mjög mikilvægt. Síðast en ekki síst vil ég nefna vatnsverndarlögin, sem er innleiðing á vatnatilskipun Evrópusambandsins sem við Íslendingar ákváðum að flýta. Er það í anda þess sem sífellt fleiri jarðarbúar leggja áherslu á, þ.e. að vernda þá dýrmætustu auðlind sem við eigum sem er vatnið.

Ég hef hér reynt að lýsa allri þeirri vinnu sem fram fór á sviði náttúru- og umhverfisverndar í tíð síðustu ríkisstjórnar og spegla hana í þessu mjög svo litla frumvarpi sem boðar mikla afturför. Það er hæstv. ráðherra úr ranni Framsóknarflokksins sem leggur það fram. Þetta er maður sem vinnur í arfleifð Eysteins Jónssonar og Steingríms Hermannssonar. Það er til vansa fyrir Framsóknarflokkinn að sýna engan vilja til þess að leita annarra leiða en að nema úr gildi náttúruverndarlög. Í ljósi óvissu um friðlýsingu Þjórsárvera, vandlætingu á umsögnum almennings um rammaáætlun, óljósri andstöðu við náttúruverndarlögin sem erfitt er að fá fram efnislega hver er, er erfitt að hafa trú á því að ráðherra ætli sér yfir höfuð að færa okkur fram á sviði náttúruverndar. Þau lög sem við samþykktum í vor mörkuðu tímamót og færðu okkur nær nágrannaþjóðum okkar. Ef við afnemum þessi lög nú hér á Alþingi Íslendinga þá erum við að staðfesta það að við ætlum að vera árum og áratugum á eftir öðrum þjóðum þegar kemur að vernd náttúru og umhverfis.

Það er einkennilegt að lesa þetta mál. Það fyrsta sem maður rekur augun í er að frumvarp um náttúruvernd á Íslandi einkennist að mati umhverfisráðherra um of af boðum og bönnum. Ég skil ekki hvernig hæstv. umhverfisráðherra eða umhverfisráðherra almennt dettur í hug að vernd umhverfis og náttúru gagnvart þeim gríðarlegu sérhagsmunum sem hafa mikinn ávinning af því að fá að nýta náttúru og umhverfi án tillits til almannahagsmuna, getur verið án boða og banna — hvernig maður getur almennt verndað náttúru án boða og banna. Eða hvað er það sem hann vill banna minna eða alls ekki banna? Það kemur bara ekki fram í þessu frumvarpi.

Mér finnst það vandræðalegt að ráðuneyti sem ég ber almennt traust til, sem er umhverfisráðuneytið, skuli skila frá sér frumvarpstexta þar sem kvartað er yfir boðum og bönnum á sviði náttúruverndar. Ég ætla ekki að fara að eltast við það hver skrifaði þennan texta en ég vona að viðkomandi embættismanni hafi ekki liðið vel þegar hann skrifaði hann og ég vona að enginn embættismaður í umhverfisráðuneytinu hafi átt frumkvæðið að því að skrifa texta sem þennan.

Hæstv. forseti. Það er með sorg í hjarta sem ég tala í þessu máli en mér var ekki stætt á öðru enda er það forkastanlegt að umhverfisráðherra fordæmi boð og bönn á sviði náttúruverndar.