143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar kom hér áðan í ræðustól og mér heyrðist á honum að hann væri mjög samningsfús að taka þetta mál í vinnslu í nefndinni. Það hefur verið svolítið torvelt að skilja orð hæstv. ráðherra versus orð hv. formanns umhverfis- og samgöngunefndar. Maður spyr sig: Í hvaða farveg á þetta mál að fara? Á að leggja hér fram nýtt frumvarp þar sem byggt er að einhverju leyti á því frumvarpi sem við ræðum hér og er verið að tala um að afturkalla eða á að sníða svokallaða agnúa sem hæstv. ráðherra telur vera á þessu frumvarpi af í nefndinni? Telur hv. þingmaður að menn séu að tala sömu tungu, formaður hv. umhverfis- og samgöngunefndar og hæstv. ráðherra? Hvora leiðina telur hv. þingmaður vænlegri; að nefndin vinni þetta mál byggt á þessum lögum eða ráðherra smíði nýtt frumvarp?