145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það sem maður rekur augun í þegar fjallað er um þessi mál er að ástæðan hefur beinlínis ekki komið fram nákvæmlega. Hún er orðuð en það hafa ekki verið færð rök fyrir þeim orðum. Hv. þingmaður, sem talaði á undan mér í andsvörum, las upp hver tilgangurinn væri. Það hafa ekki verið færð fyrir þessu rök. Þetta er bara lagasetning sem felur í sér þessi örfáu orð en rökin á bak við þau eru ekki til staðar. Það er auðvitað það sem við erum að gagnrýna. Samstarfið hefur gengið ágætlega fram til þessa og það er hægt að bæta það og laga. Það er hægt að efla stofnunina og það hefði að mínu viti átt að vera markmið utanríkisráðuneytisins að styrkja hana en kannski er ráðuneytið bara orðið svona lítið að það vantar eitthvað að gera, hvað veit ég. Þetta hljómar alla vega mjög undarlega. (Forseti hringir.) Ég held að þetta séu bara orð en ekki eitthvað sem styður þau.