146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

breytingar á Dyflinnarreglugerðinni.

[15:14]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt að ég átti óformlegan fund með kollegum mínum, ekki bara í Evrópusambandinu heldur á Schengen-svæðinu þar sem voru ræddar enn og aftur hugmyndir um breytingar á Dyflinnarreglugerðinni í þá veru að skylda þátttökuríkin til þess að taka að sér hlutverk ríkis til fyrstu afgreiðslu. Ég benti á það ásamt fleiri dómsmálaráðherrum annarra ríkja að í því fælist grundvallarbreyting á reglugerðinni. Í þessu sambandi var til að mynda rætt að næði sú breyting fram að ganga yrði að takmarka líka heimildir hælisleitenda til að flytja sig til eftir afgreiðslu innan Evrópusambandsins.

Í því sambandi var sú spurning einkum rædd hvort mönnum hugnaðist að taka upp svona breytingu á Dyflinnarreglugerðinni eingöngu á grundvelli tölulegra staðreynda, þ.e. að sú skylda yrði lögð á ríki að taka á móti tilteknum fjölda hælisleitenda án þess að líta til annarra sjónarmiða. Ég lagði áherslu á að óraunhæft væri að afgreiða málefni hælisleitenda með þeim hætti. Það væri bæði í samræmi við mannúðarsjónarmið og mannréttindi að líta alltaf til væntinga og óska hælisleitenda á hverjum tíma þannig að ekki væri verið að senda hælisleitendur til landa sem þeir hefðu engan áhuga á að dvelja í. Í kjölfarið færi þá fram einhvers konar framhaldsflutningur, sem hugmyndir eru uppi um að banna á þessu stigi. Ég varaði eindregið við því að sú leið yrði farin.

Nú er hins vegar hugmynd uppi um að í stað þess að breyta (Forseti hringir.) Dyflinnarreglugerðinni leggi menn þessa skyldu á önnur Evrópuríki á vettvangi Evrópusambandsins en ekki á vettvangi Schengen, svo að ég svari hluta af fyrirspurn að þessu sinni.