149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

birting dóma og nafna í ákveðnum dómsmálum.

[10:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Erindi mitt er fyrirhugað frumvarp dómsmálaráðherra um birtingu dóma og myndatökur í dómhúsum. Ég veit varla hvar ég á að byrja, þetta er svo skelfilegt frumvarp. Með því er lagt til að hætt verði að birta dóma sem varða tiltekin viðfangsefni. Meðal þeirra eru kynferðisbrot og með samþykkt frumvarpsins yrði því allri opinberri birtingu á dómum sem varða kynferðisbrot hætt.

Sömuleiðis segir í frumvarpinu að í dómum og úrskurðum í sakamálum skuli gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir; sem sagt að nafn allra brotamanna á Íslandi, samkvæmt frumvarpinu, skuli fara leynt. Hvernig þetta frumvarp komst út úr dómsmálaráðuneytinu, með alla þá lögfræðinga sem eru þar, er mér gjörsamlega fyrirmunað að skilja.

Í greinargerð með frumvarpinu er að finna alls konar rökstuðning fyrir því að þetta gæti talist góð hugmynd en við skulum hafa í huga að það að hætta allri nafnbirtingu í vefútgáfu dóma er mjög viðamikil breyting frá gildandi framkvæmd og maður spyr sig hvers vegna slík breyting sé nauðsynleg. Meðal annars er vísað til þess að nauðsynlegt geti verið að vernda persónu brotaþola eða viðkvæmar persónuupplýsingar um þá sem koma fram í dómunum og það er alveg rétt að dómstólar hafa oft farið mjög illa með viðkvæmar persónulegar upplýsingar. En það að hætta allri nafnbirtingu og hætta að birta opinberlega dóma er ekki svar við því.

Eins og við vitum er reglan um að dómþing skuli háð í heyranda hljóði einn af hornsteinum reglunnar um réttláta málsmeðferð sem er lögfest í stjórnarskrá, mannréttindasáttmála Evrópu og alþjóðlegum samningum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þessi lagabreyting er í trássi við ákvæði allra þessara sáttmála.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Í hverra þágu á að leggja upp í þessa vegferð? Ég fæ ekki betur séð en að ætlunin sé að slá skjaldborg um nauðgara og níðinga þessa lands á skjön við stjórnarskrá og grunnreglur réttarríkisins.