149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

umboðsmaður Alþingis.

235. mál
[16:57]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni. Þetta er mjög mikilvægt mál. Það lætur kannski ekki mikið yfir sér en er afar mikilvægt. Þetta er grundvallarmannréttindamál og við eigum að sjá sóma okkar í að standa vel að þessu og þótt fyrr hefði verið, má segja, því að hér er um að ræða nokkuð roskna bókun sem loksins er þá að komast til framkvæmda á Íslandi.

Í öðru lagi er ég einnig sammála því að ég held að vel sé til fundið að fela umboðsmanni þetta eftirlit. Þetta verður sjálfstæður þáttur í störfum hans og það þarf allt saman að standast þær kröfur sem samningurinn og bókunin gerir ráð fyrir.

Ég held að það sé bæði praktískt fyrirkomulag og efnislega rökrétt að umboðsmaður fari með þetta eftirlit. Ef við veltum fyrir okkur hver annar hefði átt að gera það er hann vandfundinn, hygg ég, sem fullnægði öllum skilyrðum. Valkosturinn hefði væntanlega verið að setja á fót nýja eftirlitseiningu, því að hún verður að vera óháð og sjálfstæð. Ég held að það hefði ekki verið mjög praktískt fyrirkomulag.

Auðvitað veit maður að slíkt eftirlit hjá umboðsmanni mun njóta geysilega góðs af þeirri reynslu sem þar er til staðar og vera þar í góðri sambúð við annað almennt hlutverk umboðsmanns.

Varðandi fjárveitingarnar vísa ég til framsöguræðu minnar og reyndar ágætrar umfjöllunar í greinargerð með frumvarpinu. Það var strax tekið skýrt fram af hálfu forsætisnefndar og í samráði við umboðsmann að algjör forsenda þess að við féllumst á þetta fyrirkomulag — ég minni á að það er ósk framkvæmdarvaldsins að svona verði þessu fyrir komið — væri að þetta yrði fullfjármagnað, kæmi ekki niður á núverandi starfsemi hvorki hjá umboðsmanni né Alþingi. Í fjárlögum þessa árs er upphæð sem er um 2/3 af því sem áætlað er að þetta kosti á heilsársgrundvelli og sjá þarf til þess að tryggja þá fjárhæð að fullu í fjárlögum næsta árs.