149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[17:38]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni að umræðan er góð og það er ágætt að þingmenn setji sig í stellingar til þess að skoða þessi mál. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég lít svo á að við getum ekki stigið þessi skref akkúrat núna, þá meina ég akkúrat núna í mjög þröngum skilningi, (Gripið fram í.)þ.e. á meðan samningaviðræðurnar eru í gangi. Það kann vel að vera að það sé rétt hjá hv. þingmanni að löggjafarvaldið eða framkvæmdarvaldið muni stíga með einhverjum hætti inn í kjarasamningana. En leyfum þá viðræðunum að fara af stað. Við getum unnið heimavinnuna okkar og verið tilbúin, en mér finnst að við eigum ekki að gefa fyrir fram ádrátt um að við munum negla þetta nákvæmlega niður með einhverjum hætti versus eitthvað annað. Það hlýtur að fara eftir því hverjar óskir aðila á vinnumarkaði verða varðandi aðkomu stjórnvalda að samningunum.