149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:25]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka að hér er fyrst og fremst verið að fela bændum frelsi til að fara með forráð fyrir eigin samningum kjósi þeir svo, eða fela samtökum að fara með samninga fyrir sína hönd. Það skal ekkert útilokað, t.d. með auknu frelsi til sjálfstæðrar vinnslu sem við höfum umtalsverð tækifæri til að auka, svigrúmi bænda til að vinna eigin afurðir, fullvinna eða markaðssetja undir eigin merkjum, að bændur geti skapað sér mjög áhugaverð tækifæri. Það er bara eins og við sjáum í öllum öðrum atvinnugreinum, að atvinnurekendur skapa sér sérstöðu með vörur sínar undir eigin vörumerkjum oft og tíðum. Og þau tækifæri eiga ekkert síður við í landbúnaði en öðrum atvinnugreinum.

Það er alveg rétt að búin eru undirstaða byggðar í landinu og við erum ekki að tala fyrir neinni breytingu á stuðnings- eða styrkjaumhverfi greinarinnar, alls ekki, (Forseti hringir.) heldur fyrst og fremst að breyta þeirri umgjörð sem um þetta gildir og þeim samkeppnistakmörkunum (Forseti hringir.) sem í því felast. Við trúum því að það skapi bændum aukin tækifæri til nýsköpunar og (Forseti hringir.) til að bæta eigin hag.