149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[19:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og nafna mínum andsvarið. Það er alveg rétt að landbúnaður keppir við niðurgreiddan landbúnað í öðrum löndum. Við niðurgreiðum líka landbúnað og veitum honum umtalsverða vernd í formi tolla og ýmiss konar annarra hindrana og hér er ekki lagt til að í neinu sé hróflað við þeirri vernd og þeim stuðningi sem greininni er veitt.

Það á vafalítið við um flestar atvinnugreinar að í einhverjum tilvikum þurfa þær að glíma við samkeppni frá greinum sem njóta einhvers konar stuðnings í heimalöndum sínum einhverra hluta vegna, nema í flestum tilfellum þeirra sem starfa innan innri markaðar Evrópusambandsins þar sem slíkur stuðningur er óheimill. En þegar kemur að stöðu verslunar í landinu er alveg rétt að þar, eins og víða annars staðar, er vissulega fákeppni, fáir ráðandi aðilar á markaði, en ekkert (Forseti hringir.) annað sem við höfum séð í því en (Forseti hringir.) að samkeppni sé þar nokkuð hörð milli þeirra sömu aðila, sem endurspeglast m.a. í vöruþróun þeirra vara. Ég sé ekkert athugavert við það að um leið og við veitum bændum (Forseti hringir.) frelsi til þess að markaðssetja og selja vörur sínar beint, kjósi þeir svo að gera, (Forseti hringir.) eða þá inn á slíka markaði án opinberra (Forseti hringir.) verðlagsafskipta, sé það nákvæmlega sama umhverfi og öllu öðru atvinnulífi er búið (Forseti hringir.) hér inni.