152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:49]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Mér hefur fundist þetta kjörtímabil hefjast með þeim hætti að það sé ástæða til að brýna forseta og ráðherra til dáða. En af því að nefndar voru aðrar leiðir til að hafa samband við ráðherra en það sem við erum að reyna að tala fyrir hér í dag rifjast upp fyrir mér að ég lagði fram skriflega fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra þann 8. desember. Viðfangsefnið var niðurgreiðsla á sálfræðiþjónustu, mjög brýnt mál í heimsfaraldri sem má telja í árum. Hæstv. ráðherra hefur 15 daga til að svara þegar þingmenn leggja fram skriflegar fyrirspurnir. Í einhverjum tilvikum er óskað eftir fresti til að fjölga dögum ef þörf er talin á. Það hefur ekki verið gert og ekkert svar hefur borist. Hér erum við því að sjá aðra birtingarmynd þess að ráðherrar hunsa þingið, það er ekki bara að þeir mæti ekki í þingið, þeir svara ekki skriflegum fyrirspurnum.