152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

hlutdeildarlán og húsnæðisverð.

[10:57]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég er glaður að fá að koma hingað upp og svara fyrirspurnum þingmanna. Ég hef lagt það í vana minn að mæta hérna reglulega, vegna umræðunnar á undan um fundarstjórn forseta, og hefur ekki skort á að ég hafi gefið kost á því. En það hefur hins vegar ekki alltaf verið þannig að þingmenn hafi notað tækifærið og spurt hæstv. ráðherra sem hér hefur setið undir óundirbúnum fyrirspurnum lon og don. En ég er mættur og leið svolítið áðan eins og manninum í kirkjukórnum eða fastagestinum í kirkjunni þar sem presturinn skammaði öll sóknarbörnin fyrir að mæta ekki. Ég er mættur og vil glaður svara fyrirspurn hv. þingmanns og get gert það mjög auðveldlega.

Það er þannig að hlutdeildarlánin eru að einhverri fyrirmynd frá Bretlandi og hafa þar virkað mjög vel. Við erum búin að vera að setja þau af stað hér. Þau fóru vel af stað. Það er margt sem bendir til þess að ástæðan fyrir því að þau ná ekki útbreiðslu eða nýtast, skulum við segja, á höfuðborgarsvæðinu sé einfaldlega að hér er framboðsskortur á lóðum og byggingum (Gripið fram í: Nei … ) og þar af leiðandi ekki nægilega mikið af ódýrum lóðum til að hægt sé að byggja þær íbúðir sem hlutdeildarlánin kalla eftir. Það er kannski ekkert óeðlilegt þegar verktakarnir sem eru að byggja, ef þeim standa fyrst og fremst til boða mjög dýrar lóðir á háu verði, leggi sig ekki fram um það á meðan markaðurinn virðist þola svona há verð.

Þetta er eitt af því sem við verðum að leggjast yfir í nýju innviðaráðuneyti með ný húsnæðismál og skipulagsmál, að reyna að samtvinna þetta, að reyna að fá betri yfirsýn, ná húsnæðisáætlunum sveitarfélaganna yfir á stafrænan grunn, sem þau eru komin á, að reyna að ná mannvirkjaskránni yfir til að fá betri yfirsýn, til að bæði ríki og sveitarfélög geti gripið inn í fyrr og verið með eðlilegra framboð.