152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Nú heyrast aðeins bjartsýnni tónar frá sóttvarnayfirvöldum og Landspítala um þróun faraldursins. Þá gefst vonandi tóm til að fara yfir það sem á undan er gengið, safna gögnum og meta hvað gekk vel og hvað illa, undirbúa okkur til að takast á við næsta faraldur eða næstu bylgju sem við vonum samt innilega að við þurfum ekki að glíma við.

Ég tel afar mikilvægt að við förum yfir sóttvarnaaðgerðir frá upphafi faraldursins sem allra fyrst á meðan allt er okkur í fersku minni. Ein af ástæðunum fyrir því að grípa þurfti til íþyngjandi sóttvarna er að heilbrigðiskerfið okkar er ekki í stakk búið til að takast á við faraldurinn. Við blasir að mæta þarf kröfum framlínustarfsmanna og langtímaáskorunum sem felast í öldrun þjóðarinnar, manneklu og starfsaðstæðum sem valda álagi í kerfinu. Gífurlegt álag á framlínufólkið okkar hefur nánast verið stöðugt í tæp tvö ár. Því er spáð að næsti faraldur, ef svo má að orði komast, verði kulnun í starfi vegna álagsins. Hvað vill hæstv. ráðherra gera til að koma í veg fyrir slíkan faraldur?

Kórónuveirufaraldurinn hefur reynt á okkur heilsufarslega en einnig félagslega og siðferðisspurningar hafa verið áleitnar. Frelsi, réttlæti, samstaða — leiðarljós okkar jafnaðarmanna hefði þurft að vera leiðarljós allra og ekki síst stjórnvalda í þessum krefjandi aðstæðum. Að vera frjáls felur þó ekki í sér að geta gert hvað sem er án tillits til afleiðinganna. Þau sem krefjast þess komast fljótlega að því að slíkt verður helsi. Frelsinu fylgir ábyrgð, að við tökum ábyrgð á lífi okkar. Við berum einnig ábyrgð gagnvart öðru fólki. Frelsi mitt felur því í sér að virða frelsi annarra.

Í stríði og náttúruhamförum verður fatlað fólk oft út undan og gleymist í aðgerðum stjórnvalda. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort búið sé að greina og meta hvaða áhrif sóttvarnir og ekki síður aflétting þeirra hafa haft á heilsu fatlaðs fólks og þeirra sem glíma við undirliggjandi sjúkdóma sem hafa hugsanlega þurft að líða fyrir frelsi allra hinna og sæta miklum takmörkunum og einangrun vegna þess að aðrir sætta sig ekki við sóttvarnaaðgerðir. Hafa áhrif sóttvarnaaðgerða á heilsu þessa berskjaldaða hóps og fjölskyldna þeirra verið greind eða stendur til að það verði gert og þá í samvinnu við önnur ráðuneyti? Hefur gögnum verið safnað um stöðu fatlaðs fólks í faraldrinum og áhrif hans á heilsu, stuðning, menntun og atvinnu eins og skylt er að gera samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna? Voru fötluð börn eða langveik börn í brýnni þörf fyrir bóluefni í forgangi við bólusetningar barna?