152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svarið. Ég get ekki verið annað en sammála honum í því að við þurfum að spýta í lófana í geðheilbrigðismálum. En ég segi fyrir mitt leyti um markmið sóttvarnalæknis, hann horfir á 500 smit, og þá segi ég að við værum í gjörólíkri stöðu ef við værum á svipuðum stað og Nýja-Sjáland. En látum það liggja milli hluta.

Það er annað sem ég hef gífurlegar áhyggjur af og það eru eftirköst Covid. Það er stór hópur fólks sem fer illa út úr þessari veiru og þarf aðstoð, þarf að fara í sjúkraþjálfun, þarf að komast á Reykjalund, þarf að komast í endurhæfingu. En á sama tíma er ótrúlega stór hópur sem hefur ekki efni á að fara til sjúkraþjálfara af því að það er svo dýrt. Síðan er annað í þessu, það virðist vera að Sjúkratryggingar Íslands séu í stríði við flest allt í heilbrigðiskerfinu og sérstaklega virðast þeir ekki vilja semja við sjúkraþjálfara. Þeir sömdu loksins við talmeinafræðinga, en núna eru þeir komnir í stríð við SÁÁ í miðjum Covid-faraldri, stofnun sem er að bregðast við vegna Covid og er að reyna að sinna þeim sjúklingum sínum. En þá kemur þessi stofnun, Sjúkratryggingar, og fer að ráðast á SÁÁ fyrir að bregðast við. Á sama tíma erum við hér í þinginu að koma með frumvörp til að hjálpa einkareknum fyrirtækjum úti í bæ sem verða fyrir tjóni út af lokunum og öðru. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hann kynnt sér hvað er í gangi á milli Sjúkratrygginga og SÁÁ? Finnst honum eðlilegt að fara þessa leið, að kæra SÁÁ til saksóknara fyrir það að reyna að sinna þessari nauðsynlegu þjónustu, (Forseti hringir.) hjálpa þessum einstaklingum sem þurfa virkilega á hjálp að halda? Hvaða afleiðingar getur það haft fyrir þessa einstaklinga ef (Forseti hringir.) þeir fá ekki þá þjónustu sem þeir eiga rétt á að fá og þurfa á að halda?

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk. )