152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:47]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að flytja þinginu þessa skýrslu. Ég verð hins vegar að segja að skilaboðin sem koma frá ríkisstjórninni og ríkisstjórnarflokkunum um framhaldið eru óskýr, þversagnakennd og eiginlega ekki boðleg. Þar er ekki bara við heilbrigðisráðherra að sakast.

Í nýlegri fréttaúttekt á Stöð 2 kom fram að mikill meiri hluti þingmanna Sjálfstæðisflokks efast um réttmæti harðra sóttvarnatakmarkana og þær eru svo sannarlega harðar í dag. Alls 12 af 17 þingmönnum flokksins styðja í raun ekki ríkisstjórnina í þessum málum og þar af eru þrír ráðherrar. Þetta er alveg magnað. Tólf stjórnarþingmenn, þar af þrír ráðherrar, eru ekki sammála þeim hörðu takmörkunum sem þeirra eigin ríkisstjórn setur á landsmenn. Varaþingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi leiðir skrúðgönguna og krefst afsagnar sóttvarnalæknis á milli þess sem hann reynir að koma í veg fyrir að börn verði bólusett.

Við heyrum þessa þingmenn ítrekað tala gegn ákvörðunum eigin ríkisstjórnar. Þeir tala og tala en gera ekki neitt. Þessir 12 þingmenn, og þar af þrír ráðherrar, hafa raunverulega völd í þessu máli en þeir kjósa að beita því valdi ekki, hvorki við ríkisstjórnarborðið né sem þingflokkur. Þeir tala fallega og af innlifun um frelsi og mannréttindi og benda ítrekað á allsvakalegar afleiðingar af hörðum sóttvarnaráðstöfunum, félagslegar og andlegar afleiðingar, og tugmilljarða útgjöld ríkissjóðs. En það er ekki nóg að vera svalur á Twitter; að standa bara með frelsinu í orði en ekki í athöfnum er hræsni. Í stað þess að standa raunverulega með frelsinu var það hlutskipti Sjálfstæðisþingmanna í gær að sitja undir skömmum frá formanni fjárlaganefndar hér í þinginu, en þingmaður VG, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sakaði þá um upphrópanir og að byggja afstöðu sína á hugmyndafræði en ekki gögnum. Ég hef samúð með þessum mörgu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og er sammála þeim efnislega um mjög margt þegar kemur að faraldrinum. Það er orðið tímabært að endurhugsa nálgun okkar á sóttvarnir í ljósi vægara afbrigðis og bólusetninga, líkt og hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir sagði réttilega hér áðan. En ég get ekki skilið langlundargeðið í næstum tvö ár þar sem þetta er flokkur með völd.

Ég myndi gjarnan vilja fá svör við því frá hæstv. heilbrigðisráðherra hvers vegna hann og forsætisráðherra tala um að sátt sé um þessar hörðu aðgerðir innan ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna þegar það er algerlega augljóst að svo er ekki. Og hvað finnst ráðherranum um að samráðherrar hans og þingmenn stærsta stjórnarflokksins bakki ekki upp þessar hörðu takmarkanir í ljósi þess að formenn ríkisstjórnarflokkanna og sóttvarnayfirvöld hafa ítrekað sagt að aðgerðirnar virki ekki nema um þær sé samstaða í samfélaginu? Það er nefnilega algerlega augljóst að sama hvort menn tala fyrir frelsi eða takmörkunum, hvort menn nálgast þetta út frá hugsjónum, mannréttindum, lýðheilsu, fjárhag ríkissjóðs eða þessu öllu saman, þá næst enginn árangur þegar þeir sem eiga að ráða för vilja stýra fleyinu í ólíkar áttir.

Skaðar það ekki sóttvarnamarkmið ríkisstjórnarinnar, hæstv. heilbrigðisráðherra, að einstaka ráðherrar tali einbeitt, oft og opinberlega um og gegn eigin ákvörðunum?