152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni Sigmari Guðmundssyni fyrir þessa umræðu hér og því sem hann varpar fram um skilaboðin. Skilaboð þurfa að vera skýr. Það snýr að jafnvæginu sem ég hef komið inn á áður í þessari umræðu, þetta vandasama jafnvægi á milli frelsis og takmarkana. Af hverju erum við að þessu öllu saman? Það sem mér finnst vinir mínir í ríkisstjórn gleyma þegar kemur að frelsinu er að horfa til þessa jafnvægis, sem er eðlilegt eftir því sem fram hefur undið í þessum faraldri og tölfræði farin að vekja okkur vonir um að við getum farið að létta takmörkunum í skrefum. En þá megum við ekki gleyma af hverju við erum að þessu öllu. Gefum okkur að við myndum aflétta öllu. Hvað myndi gerast? Þá myndi útbreiðsla smita verða meiri en við myndum ráða við í heilbrigðiskerfinu. Það liggur alveg fyrir þannig að það er bara ekki í boði. Horfum á okkar helstu sóttvarnaráðstafanir og þau tæki sem hafa virkað best hér og víða annars staðar, sem eru einangrun og sóttkví, til að hemja útbreiðslu. Ef þú gefur of mikið frelsi, ert ekki með almennar takmarkanir, þá fyllast þessi úrræði, eins og raunin hefur verið í þetta mikilli útbreiðslu, þetta eru 20.000 manns. Það kemur niður á allri starfsemi, þannig að þetta er alltaf jafnvægi.

Þegar kemur að því að spyrja beint hvort að þetta sé ekki — ég skrifaði ekki hjá mér hvernig spurningin var orðuð beint en það er þessi sátt sem er mikilvæg. Við ræðum okkur til samstöðu í ríkisstjórn. Þegar koma síðan misvísandi skilaboð í framhaldinu. Auðvitað má fólk hafa ólíkar skoðanir, skárra væri það nú, en ég held að það sé aldrei gott og að það rugli umræðuna, það grefur undan þeim aðgerðum sem verið er að fara í vegna þess að samstaðan er mikilvæg. Ég segi það aldrei nógu oft að þegar búið er að ræða sig niður á niðurstöðu og taka ákvörðun þá er svo mikilvægt að því fylgi trú á að þetta sé það sem þurfi að gera, byggt á tillögum okkar helstu vísindamanna og sóttvarnalæknis, að við sameinumst um (Forseti hringir.) að láta þær ákvarðanir ganga upp. Það er samstaða í mínum huga, virðulegur forseti.