152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[15:16]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma undanfarin tvö ár. Ég held að það sé algerlega ljóst að staðan í þessari atvinnugrein heilt yfir hefur verið bæði erfið og íþyngjandi. Þetta eru aðilar og staðir sem hafa þurft að sæta miklum takmörkunum, ýmist þurft að loka fyrr eða verið gert að loka algerlega ásamt því að fjöldatakmarkanir hafa verið þar eins og annars staðar. En að þessu sögðu, af því að við erum að ræða þetta mál hér í dag, þá var brugðist við og segja má að við höfum stigið ákveðin skref hér á mánudaginn og erum að halda áfram og þetta er innlegg okkar í það verkefni að bregðast við þeirri stöðu sem blasir við þessum fyrirtækjum. Ég held samt sem áður að ekki nokkur maður, atvinnurekandi eða annar, geri þá kröfu að það tap sem hefur orðið á síðustu tveimur árum fáist að fullu greitt til baka.

Þetta tiltekna mál er mjög mikilvægt. Það sýnir að mínu viti að við séum að bregðast við og ætlum að koma til móts við þessi fyrirtæki og þessa atvinnugrein af krafti. En að því sögðu vil ég jafnframt segja það, og ég hef heyrt það í umræðum sem voru hér fyrr í dag og ég held að félagar mínir í efnahags- og viðskiptanefnd og aðrir sem hér hafa talað séu sammála því, að nefndin mun taka þetta til meðferðar hjá sér og rýna þetta vel. Þarna eru a.m.k. tvö atriði sem ég myndi vilja að yrðu skoðuð og ígrunduð vel. Ég ætla að fara yfir þau hér á eftir. En ég vil kannski áður en ég geri það segja að mér hefur fundist, í umræðum almennt þegar talað er um þessi fyrirtæki og þessa atvinnugrein, að hún sé einhvern veginn flokkuð neðar eða sett á lægri stall en aðrar atvinnugreinar. Ég veit ekki hvort það er vegna eðlis þessara fyrirtækja eða þeirrar þjónustu sem þau veita. Ég vil segja að á bak við þessi fyrirtæki eins og önnur eru fjölskyldur og einstaklingar sem hafa unnið mikið, lagt allt undir í sinn rekstur, í sitt fyrirtæki, til þess að halda því gangandi. Það er af þeirri ástæðu sem ég vil leggja til að ákveðin atriði í þessu máli séu tekin til skoðunar.

Fyrst vil ég nefna, af þessu tveimur atriðum, að við fjölluðum á mánudaginn um frestun á staðgreiðslu opinberra gjalda sem er, má segja, eitt af fyrstu skrefunum til að bregðast við þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir. En í skilyrðum fyrir úrræði í þessu tiltekna frumvarpi er sagt í 4. gr. að rekstraraðili þurfi að uppfylla öll skilyrðin, sem eru fimm, en í 4. tölulið er það orðað með þeim hætti að rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta eða skattsektir. Eðlilega geri ég engar athugasemdir við það en ég held að það sé rétt að fá túlkun á þessu atriði, hvort þeir aðilar eða þau fyrirtæki sem nýta sér þetta frestunarmál og eru, má segja, að ýta á undan sér gjalddögum, teljist í vanskilum með opinber gjöld eða ekki. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum þetta til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd og skoðum þetta vel og fáum mjög skýr svör hvað þetta varðar vegna þess að ég tel að fjölmörg fyrirtæki muni nýta sér frestun á staðgreiðslu opinberra gjalda og þá myndu þeir sömu aðilar falla á því skilyrði í frumvarpinu. Ég held að það sé ekki hugmyndin og sé ekki ætlunin, ef svo má segja.

Hitt atriðið kemur svolítið að því sem ég nefndi hér áðan varðandi það að hluti þessara fyrirtækja eru litlar krár eða öldurhús eða hvað það nú er kallað, ekki stórir veitingastaðir. Ég ætla að leyfa mér að segja að fjölmargir úr þessum hópi hafa haft samband við mig og þetta eru, að ég tel, fyrirtækin eða aðilarnir sem eru búnir að skera alla fitu hjá sér, eru komnir inn að beini. Það er búið að hliðra til með starfsfólk og annað og þetta eru fjölskyldurnar sem standa vaktina sjálfar og ástæðan er einföld. Þetta eru staðirnir sem hafa þurft að sæta miklum takmörkunum, hafa þurft að stytta opnunartíma og hafa hreinlega ekki haft burði til þess að vera með starfsfólk í vinnu. Og þá komum við að 5. gr., sem er fjárhæðin. Ég verð bara að leyfa mér að segja, virðulegur forseti, að ég hef ákveðnar áhyggjur af þeim lið og það er annað mál sem ég mun óska eftir að nefndin skoði vel, þ.e. að greidd sé ákveðin upphæð fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila. Ég hef áður velt því upp í þessari pontu hvort ekki sé rétt að miða við eitthvað annað, ætla ég að leyfa mér að segja. Ég hef nefnt hér fastan rekstrarkostnað eins og leigu, hita og rafmagn o.s.frv. Það er að mínu viti önnur leið sem mætti skoða í þessu sambandi. Hvort það er hins vegar rétta leiðin, því get ég ekki svarað hér og nú. En ég tel að það sé algerlega þess virði að taka það til skoðunar og mögulega einhverja aðra leið sem kann að vera þarna úti. Ég held líka að við getum kannski litið til þeirra aðgerða sem nágrannaþjóðir okkar hafa beitt vegna þess að þetta er ekkert einsdæmi. Það erum ekki bara við, hér á okkar góða Íslandi, sem erum að bregðast við með þessum hætti gagnvart þessum fyrirtækjum.

Að þessu sögðu, virðulegur forseti, þá held ég að ég sé búinn að fara yfir þau atriði sem ég vildi tiltaka í þessari ræðu minni. Ég legg áherslu á það aftur að það er mjög mikilvægt að efnahags- og viðskiptanefnd taki málið, leggist vel yfir það og vandi mjög vel til verka vegna þess að málið er mjög brýnt.