152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

ávana- og fíkniefni.

24. mál
[17:32]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og heiðarleikann og tilfinningarnar. Ég tek algerlega undir með henni, ég held að þetta sé hárrétt, að fólk er hrætt, og það er það sem þetta snýst um. En þess vegna er svo mikilvægt að við getum litið til annarra þjóða. Horfum bara til Sviss, þar var heróín afglæpavætt. Þetta er mjög íhaldssamt ríki og það varð allt vitlaust við tilhugsunina um að gera þetta. Það varð allt brjálað. En það sem gerðist var að það er enginn í dag sem myndi vilja snúa til baka vegna þess að smitsjúkdómar fóru niður, vændi hvarf af götunum, vímuefnavandinn minnkaði, dauðsföll af völdum ofskömmtunar hurfu alveg. Og fimm árum eftir þetta vildi ekki einu sinni íhaldssamasti flokkurinn hverfa aftur til fyrra horfs. Í Portúgal var allt afglæpavætt og peningurinn settur í heilbrigðisþjónustu í staðinn. Vímuefnaneysla þar er minni en að meðaltali í Evrópu, vímuefnaneysla minnkaði í aldurshópnum 15–24 ára, HIV, berkla- og lifrarbólga B og C, smit og dauðsföll af völdum vímuefna hríðféllu. Þar er enginn að fara að snúa til baka. Þau ríki sem hafa farið þá leið að hætta að refsa neytendum vímuefna, að hætta að refsa fólki með vímuefnavanda fara ekki til baka. Ástæðan fyrir því er sú að þau sjá að þetta virkar.

En aftur, út af því að hv. þm. Jódís Skúladóttir talar um, hræðsluna og óttann og að hana langi til þess að lesa sér til um málið, þá mæli ég eindregið með bók eftir Johann Hari sem heitir á íslensku Að hundelta ópið, eða á ensku Chasing the screem. Þar er rakin saga stríðsins við fíkniefni og ja, ég myndi segja að allir sem hafa einhvern áhuga á að fræðast ættu að lesa þá bók.