152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

ávana- og fíkniefni.

24. mál
[17:45]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn. Spurningin var: Heldur núverandi löggjöf aftur af neyslunni? Nei, hún heldur ekki aftur af neyslunni því að, eins og ég sagði áðan í upphafi máls míns, ég þekki engan sem reykir ekki gras af því að það er ólöglegt, fólk reykir ekki gras kannski bara af því að það langar ekki til þess. Vissulega er það þannig að það eru ekki allir sem drekka brennivín sem verða alkóhólistar og það eru ekki allir sem myndu fá sér í nefið sem yrðu fíklar. En þetta mun samt sem áður gera aðgengi að eiturlyfjum meira, ef þau verða afglæpavædd, af því að þá er svo auðvelt að bjóða þau til sölu. Varðandi heróínneyslu þá var einn vinur minn lengi í heróíni og hann sagði mér um daginn að það væru miklu betri þessi lyfseðilsskyldu lyf sem fást í apótekunum í dag, gæfu miklu betri vímu en nokkurn tímann heróín. Heróín, sem maður hélt á sínum tíma að væri toppurinn á tilverunni. En svo er ekki. Við erum að díla við svo rosalega stórt vandamál sem er einhvern veginn ekki hugsað til enda með því að hlaupa til og afglæpavæða. Ég skil það vel að það eru margir sem fara af stað og eru í neyslu, ég er ekkert að leggja dóm á það vegna þess að ég var sjálfur í neyslu, mitt vímuefni var áfengi, því miður. Ég segi því miður, ég meina, mig langaði í kókaín en ég sá það bara aldrei. Ég hætti vegna þess að ég var búinn að missa tökin á þessu og þurfti að leita mér hjálpar, sem ég gerði og þannig er það. — Tíminn er búinn.