152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

ávana- og fíkniefni.

24. mál
[17:51]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir þessa góðu framsögu og þakka henni fyrir að eiga frumkvæði að því að leggja fram þetta góða mál. Ég er stoltur af því að vera með á því. Fyrir mér snýst þetta allt saman um ósköp einfalt grundvallaratriði sem er bara það að við eigum að taka á vanda fíkniefnaneytenda í heilbrigðiskerfinu, ekki í dómskerfinu, ekki réttarkerfinu, ekki í löggæslukerfinu, heldur gera það í heilbrigðiskerfinu. Að því leytinu til er ofboðslega viðeigandi að tala um þetta mál núna í beinu framhaldi af umræðu um geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Það sem hv. þingmaður gerir með þessu frumvarpi, og við meðflutningsfólk hennar, er að taka ómakið af heilbrigðisráðherra og ég trúi ekki öðru en að hann muni styðja við framgang þessa máls eða leggja fram sambærilegt frumvarp einhvern tímann á kjörtímabilinu. Og hér komum við að því sem skiptir kannski máli í þessari umræðu sem er það að þetta frumvarp er í öllum meginatriðum nákvæmlega eins og frumvarp sem fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, lagði fram síðasta vor. Það frumvarp fór í gegnum 1. umr., það var rætt sex sinnum á fundum velferðarnefndar, það bárust hátt í 30 umsagnir, flestar nokkuð jákvæðar, en einhverra hluta vegna þótti við hæfi að svæfa málið og afgreiða það ekki fyrir þinglok. Á því hafa aldrei komið fram neinar haldbærar skýringar. Það mál átti sér svo ákveðinn aðdraganda. Það er nú þannig að hv. þm. Halldóra Mogensen og fleiri, t.d. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fyrrverandi þingkona Samfylkingarinnar, og margir góðir þingmenn, hafa í mörg ár lagt fram mál af þessum toga og barist fyrir afglæpavæðingu neysluskammta. Núverandi stjórnarflokkar felldu slíkt mál frá Pírötum og fleirum, ef ég man rétt, árið 2020 en brugðist svo einmitt við og réttlættu kannski einmitt þann gjörning sinni á þann veg að það kæmi frumvarp frá heilbrigðisráðherra um þetta.

En núna erum við búin að taka ómakið af ríkisstjórninni. Þetta frumvarp liggur fyrir. Þetta er gott mál og mikilvægt að það fái hér bæði skjótan og vandaðan framgang í þinginu. Ef allt er með felldu þá hljóta a.m.k. þessir stjórnmálaflokkar á Alþingi sem eru í framsæknari og frjálslyndari kantinum að styðja þetta mál. Ég trúi ekki öðru en að málið fái hér framgang og mér finnst að það eigi að gerast sem allra fyrst, einmitt vegna þeirra sjónarmiða sem lúta að fíkniefnaneytendum sem hv. þingmaður fór svo vel yfir áðan. Þannig að ég ætla ekkert að hafa þetta lengra í dag. Kannski leyfi ég mér rétt að lokum að óska sérstaklega eftir því að þeir þingmenn á stjórnarheimilinu sem þetta hlýtur að hafa strandað á á síðasta kjörtímabili komi hér fram og útskýri hvað það er sem þetta strandar eiginlega á. Hvað er svona heillandi við þessa refsistefnu sem við búum við í dag? Hvað er svona hættulegt við þetta fyrirkomulag sem kveðið er á um í frumvarpinu og í frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra núna síðasta vor? Af hverju er ekki bara hægt að samþykkja þetta og stíga þetta mikilvæga framfaraskref sem allra fyrst? Lengra er það ekki, held ég, í dag.