152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

ávana- og fíkniefni.

24. mál
[18:07]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir þessa góðu ræðu og áhugaverðu punkta. Ég skal svo sannarlega taka þetta með sem veganesti inn í vinnuna í velferðarnefnd. Ég heyri það sem hv. þingmaður segir varðandi tíu daga neysluskammta. Það er eitthvað sem ég er viss um að hægt verði að finna lausn á á hátt sem virkar til að ná því markmiði að tryggja að við séum ekki að refsa fólki sem sannarlega er með efni einungis til eigin nota.

Það komu fram aðrar athugasemdir. Mig langaði líka að taka undir með þeirri hugsun hvort við þyrftum ekki bara að lögleiða. Ég er alveg sammála því. Í raun og veru finnst mér betra að hugsa um það sem það er og það er regluvæðing. Nú er bara þessi algjöri skortur á reglum, þessi frumskógur og svarti markaður. Það að lögleiða þýðir bara að við erum að skapa regluverk í kringum þetta og mér finnst það alveg samtal sem við þurfum að taka. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við erum bara ekki komin nægilega langt í þeirri umræðu.

Það sem kannski skiptir mestu máli er skaðaminnkun akkúrat núna. Við erum að sjá að dauðsföllum af völdum ofskömmtunar hefur fjölgað á Íslandi og samkvæmt SÁÁ er ópíatavandi í landinu að aukast. Þetta eru hlutir sem við getum tekið á og komið í veg fyrir með því að fara þá leið sem aðrar þjóðir hafa farið sem er að afglæpavæða vörslu neysluskammta vímuefna, þ.e. að hætta að refsa notendum vímuefna. Það hefur sýnt sig í þeim löndum sem það hafa prufað að það dregur úr dauðsföllum vegna ofskömmtunar og minnkar þannig fíkniefnavandann, minnkar vanda fólks sem notar vímuefni og það hlýtur að vera markmið okkar allra. Það hlýtur bara að vera. Það var engin spurning í þessu, ég er bara taka undir með hv. þingmanni.