152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

ávana- og fíkniefni.

24. mál
[18:09]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir að það er gott þegar tekið er undir það sem maður er að segja og tek það þá bara alla leið og fagna því mjög að hv. þm. Halldóra Mogensen sé tilbúin til að skoða vel og vandlega svona fínni blæbrigði málsins, að við séum sammála um grunnhugsunina þannig að við getum tekið einhverja umræðu um það hvers konar skilgreiningar eigi að nota í frumvarpinu og að það verði þá sem sagt regluverkið. Þetta er svolítið mikið, óttast ég, eins og þetta er þarna og ég fagna því að menn séu tilbúnir til að mæta því þá með einhverjum hætti.

Ég myndi mjög gjarnan vilja árétta það sem ég hef áður sagt að alkóhólistar og fíklar er veikt fólk og veikt fólk á skilið að við komum fram við það af virðingu á meðan það er ekki að gera neitt annað en skaða sjálft sig. Auðvitað gegnir öðru máli ef menn eru undir einhvers konar áhrifum og eru farnir að gera alvarlegri hluti, fremja glæpi og eitthvað slíkt. Það er bara önnur umræða. Ef menn eru með neyslu að skaða sig sjálfa og eru ekki með mikið efni og eru alveg augljóslega ekki að selja einhver efni eða eitthvað slíkt, þá tökum við á því fólki sem veiku fólki með mildi og mannúð en ekki með hörku og refsingum.