152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

178. mál
[18:29]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér í þriðja skiptið, og vonandi það síðasta, þetta frumvarp mitt sem lýtur að því að gefa dreifingu ösku frjálsa. Þetta er í mínum huga ekki mjög flókin lagabreyting. Hún gengur út á það að í stað þess að ríkisvaldið, yfirvaldið, hafi sterkar og miklar skoðanir og reglur í kringum það hvar og hvernig má dreifa ösku látinna manna þá sé það einfaldlega vilji hins látna sem fái að ráða. Þannig er ég hér að gera grein fyrir breytingu á 7. gr. þessara laga, að vilji einstaklingsins sjálfs fái þarna öllu ráðið.

Virðulegur forseti. Ég verð að geta þess að í þau skipti sem ég hef lagt þetta mál hér fram þá hef ég fengið ógrynnin öll af skilaboðum, tölvupóstum og símtölum. Mér þykir ofboðslega vænt um það og ef einhver af þeim sem hefur verið að senda mér þessar athugasemdir skyldi vera að fylgjast með núna þá þakka ég kærlega fyrir það. Margar af þessum sögum hafa verið býsna persónulegar og fjalla í raun um það þegar fólk er að glíma við sorgina og vill allt fyrir sinn látna ástvin gera. Hvað er mikilvægara fyrir okkur öll en að verða við ósk þeirra sem næst okkur standa eftir að þeir kveðja þetta líf? En margir segja manni sögur af því að þeir hafi ekki geta orðið við þessum óskum vegna þeirra reglna sem í gildi eru. Í dag er það þannig við erum enn í því umhverfi þar sem við gerum ráð fyrir því að fólk sé grafið með hefðbundnum hætti. En jú, það er opnað á þetta með brennsluna og það eru sífellt fleiri sem velja þann kost. Ef viðkomandi óskar þess að vera brenndur þá er líka gert ráð fyrir því að askan sé jarðsett í hefðbundnum kirkjugarði í þar til gerðu duftkeri. Ef viðkomandi óskar þess nú að það verði ekki gert, sem er augljóslega vilji yfirvaldsins með þessum lögum, þá er hægt að sækja um leyfi og skal það sótt til sýslumanns. En það er niðurnjörvað í lögin hvar hægt er að veita þetta leyfi. Ég sé bara enga ástæðu til þess að við höfum svona stórar og miklar skoðanir á því hvernig farið er með þessar jarðnesku leifar.

Þetta frumvarp hefur fengið töluverða umræðu. Eins og áður segir hef ég fengið mikið af skilaboðum og fjölmiðlar hafa líka sýnt þessu mikinn áhuga. Málið hefur aldrei komist út úr nefnd eftir 1. umr., en eins og ég sagði áðan þá vona ég að þetta sé í síðasta skipti sem ég flyt þetta mál og ég vona svo innilega að okkur lánist að afgreiða það.

Helstu rökin sem ég hef heyrt gegn þessu máli, gegn því að leyfa einstaklingnum að ráða því sjálfur og treysta aðstandendum til að virða ósk hins látna, eru þær að þetta myndi rugla okkar fallega fyrirkomulagi sem felst í kirkjugörðum og þeim mikilvægu minningarreitum sem kirkjugarðar eru. Ég ætla bara að taka það fram hér að mér þykir sjálfri kirkjugarðar og menningarleg hefð sem snýr að kirkjugörðum, m.a. í kringum jólahátíðina þar sem það tíðkast mjög að aðstandendur fari og kveiki á kertum og minnist látinna ástvina, ofboðslega falleg og mikilvæg. Ég held að þetta frumvarp myndi með engum hætti hafa áhrif á það að kirkjugarðar séu fallegir staðir, þeir eiga að vera góðir og fallegir staðir í þéttbýli þar sem fólk getur komið saman og minnst látinna ættingja. En ef hinn látni óskaði þess nú frekar að öskunni yrði dreift í skógarlundi undir Úlfarsfelli, svo ég taki nú bara eitthvert dæmi, og aðstandendur myndu gjarnan vilja fá að setja minningarskjöld á fallegt tré þar og geta komið saman þar og minnst ættingja, þá skil ég ekki af hverju við ættum að banna slíkt. En í dag er algjörlega harðbannað að merkja þann stað þar sem ösku er dreift. Ég skil auðvitað að það er ekki hægt að koma með ösku og dreifa inn í garðinn hjá einhverjum öðrum út af því að viðkomandi bjó þar einu sinni, og það er auðvitað tekið á því, ráðherra hefur reglugerðarheimild fyrir því að skrifa slíkt inn.

Í ljósi þeirrar stöðu að fleiri og fleiri velja að vera brenndir þá höfum við byggt upp sérstaka duftgarða. Umræðan í nútímasamfélagi um kirkjugarða er kannski farin að snúast svolítið um umhverfismál, að þeir séu plássfrekir í þéttbýlisumhverfi þar sem mikið er talað um þéttingu byggðar. Þá eru duftgarðarnir öðruvísi hvað það varðar. Þeir taka minna rými, og ég ætla að ítreka enn og aftur að ég hef ekkert á móti hvorki hinum hefðbundnu kirkjugörðum né duftgörðum, það er bara sjálfsagt að þeir verði áfram. Það eina er að hinn látni fái að hafa einhverja skoðun á þessu og aðstandendur geti brugðist við óskum hins látna.

En talandi um þéttingu byggðar þá sér maður það víða í borgum eða bæjum erlendis að kirkjugarðar spila þar ákveðið hlutverk. Þar erum við oft að tala um kirkjugarða þar sem hvíla látnir einstaklingar einhver árhundruð aftur í tímann. Þar er raunverulega um þéttingu byggðar að ræða og þá velti ég fyrir mér hvort það sé ekki þétting byggðar sem ætti að vera vel við haldið. Þá er ég að meina að alveg eins og það má svo sem grafa duftker í gröf í dag, það er eitthvert hámark, ég man ekki hvort það eru fimm eða sex sem mætti fara þar ofan á, þá er ekkert því til fyrirstöðu í mínum huga að það sé bara fjölskyldugrafreitur. Hann þarf ekki að taka mikið pláss og það mætti fara með töluvert magn af þessum kerjum, hvort sem það væri jarðsetja þau eða dreifa ösku, það væri þá svona minningarstaður fjölskyldunnar. Þannig að í umræðunni um þéttingu byggðar þá held ég að þétting byggðar í kirkjugörðum gæti verið mjög skynsamleg.

Í fjölmiðlaumræðu hefur ýmsu verið kastað fram og ég hef verið dregin í alls konar viðtöl og rætt þetta og fólki dettur ýmislegt í hug: Hvað með dreifingu ösku, t.d. á fótboltavelli, hjá uppáhaldsfótboltafélaginu? Við getum auðvitað farið um víðan völl í þessu. En fyrst og fremst snýst þetta um að vilji hins látna fái að ráða innan þess ramma að það sé annars vegar skynsamlegt og gert af virðingu. Ég hef fengið ábendingar um að fólki finnist þetta orðið einhvers konar grínefni þegar við tölum um hitt og þetta. En allar þær sögur sem ég hef fengið eru svo ofboðslega átakanlegar og fallegar og persónulegar að það er í rauninni með ólíkindum að árið 2022 stöndum við hérna og erum enn í þeirri stöðu að lög sem eru orðin mjög gömul og byggja á ofboðslega gamalli hefð séu enn þá föst í því að það sé ekki hægt að láta vilja einstaklingsins ráða.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar. Með þessum lögum er ég að leggja til að við opnum þessa löggjöf alveg, að ósk hins látna fái að ráða. En ég vil þó nefna það, og beini því þá til þeirra sem munu fjalla um þetta mál í nefndinni, að það er auðvitað hægt að taka þetta í einhverjum skrefum ef fólki finnst þetta allt of stórt og mikið skref. Í greinargerðinni eru upplýsingar um hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndum okkar, upplýsingaþjónusta Alþingis aðstoðaði mig við að fá upplýsingar um það. Mitt mat er að á Norðurlöndunum sé frjálsræði meira en er hjá okkur í dag þó að í kringum það séu skýrar reglur.

Virðulegur forseti. Ég vona heitt og innilega að þetta mál fái framgang því að það er ekkert mál sem ég hef látið til mín taka hér á þingi sem ég hef fengið jafn miklar athugasemdir og spurningar um, og fyrst og fremst bara hvatningu um mikilvægi þess að þetta mál nái fram að ganga.