152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál.

20. mál
[18:40]
Horfa

Flm. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég endurflyt tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldi. Tillagan var áður flutt á 150. og 151. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu þá.

Það er breið pólitísk samstaða um málið og við getum öll verið sammála um mikilvægi þess að við grípum styrkum höndum utan um þennan viðkvæma hóp og brjótum upp ákveðinn vítahring sem myndast hefur í þessum málum. Við höfum verið að stíga stór og stöndug skref í áttina að því að bæta verkferla hjá lögreglu og þá hefur einnig verið gripið til mikilvægra réttarúrbóta fyrir þolendur heimilisofbeldis. Þó er göngunni ekki lokið og við eigum fleiri skref eftir. Baráttan er ekki búin og við erum að sjá allt of háar tölur um tíðni heimilisofbeldis. Síðustu þrjá mánuði ársins 2021 voru útköllin 129 í Reykjavík einni. Á sama tíma árið áður voru þau 136. Árið 2021 voru samtals 590 útköll hjá lögreglu vegna heimilisofbeldis í Reykjavík. Af því voru 45,5% útkalla í desember 2021 vegna heimilisofbeldis af hendi maka.

Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ásgerði K. Gylfadóttur um heimilisofbeldismál á 149. löggjafarþingi kemur fram að mikill munur er á fjölda heimilisofbeldismála sem skráð voru í málaskrá ákæruvaldsins á tímabilinu 1. janúar 2015 til 3. janúar 2019 eftir landshlutum. Þá kom fram að nýjar verklagsreglur ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála hafi reynst vel, samstarf við fagaðila hafi aukist og þolendum sé tryggð betri þjónusta.

Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við því að tilkynna lögreglu um ofbeldið enda gerandinn oft einstaklingur sem er nákominn þolanda. Í smærri sveitarfélögum þar sem íbúar þekkja flestir hver annan getur það ekki síður verið þungbært að tilkynna um heimilisofbeldi. Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til þess að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum. Þótt verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld þarf samstarfið einnig að verða formfast í hina áttina, þ.e. með tilkynningum félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu og með samstarfi þeirra á milli að frumkvæði annarra yfirvalda. En til þess að slík upplýsingagjöf geti átt sér stað með skilvirkum hætti, með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi, þarf skýrari forvirkar lagaheimildir til upplýsingamiðlunar. Allt samráð milli stofnana samfélagsins þarf að eiga sér stað með þátttöku og samþykki brotaþola. Þegar ástæða er til að ætla að barn hafi orðið vitni að heimilisofbeldi eða orðið þolandi þess þarf þó að tryggja að skilyrði um þátttöku og samþykki brotaþola komi ekki í veg fyrir inngrip stjórnvalda sem sé andstætt hagsmunum barnsins. Kanna þarf hvort rýmka þurfi og skilgreina betur tilkynningarskyldu stjórnvalda, sem hafa afskipti af málum barna, til barnaverndaryfirvalda. Hagsmunir barns skulu alltaf vera í fyrirrúmi.

Þetta höfum við ítrekað staðfest, m.a. með samþykkt og innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ofbeldi á heimili barns varðar það alltaf, hvort sem barnið verður fyrir því eða verður vitni að því. Foreldrar og forráðamenn barns eru helstu fyrirmynd þess og það lærir af þeim bæði meðvitað og ómeðvitað. Þessu fylgir mikil ábyrgð. Ofbeldi, hótanir og ógnandi hegðun eru ekki réttar leiðir til að takast á við reiði, erfiði eða mótlæti. Börn læra af foreldrum og forráðamönnum hvernig bregðast eigi við áreiti. Heimilisofbeldi getur haft alvarleg sálræn áhrif á barn til frambúðar og það er sárt að vita af því að börn lifi við slíkar aðstæður. Við eigum ekki að hætta vinnu okkar gegn heimilisofbeldi. Það er í þágu allra hlutaðeigandi.

Markmiðið með þingsályktunartillögu þessari er að núverandi kerfi verði endurskoðað með það fyrir augum að einfalda barnaverndayfirvöldum, félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að miðla upplýsingum sín á milli og til lögreglu.

Ég bind miklar vonir við að við getum klárað þetta mál á þessu vorþingi og sett það í viðunandi farveg. Við verðum að skapa forsendur í okkar samfélagi fyrir því að fjölskyldur og börn geti búið við öruggar aðstæður án ofbeldis. Þau eiga að njóta þeirra grundvallarréttinda að búa við öryggi án ofbeldis og ógnar á þeim stað sem á að vera friðhelgur griðastaður. Við eigum öll þann grundvallarrétt skilinn.