152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

91. mál
[18:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur fyrir flutningsræðuna með þessu mikilvæga frumvarpi, sem ég er raunar einn af meðflutningsmönnunum á, um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og banni við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Ég er mjög stolt af því að vera í hópi ansi fríðs flokks þingmanna sem hafa í gegnum árin staðið fyrir því að leggja þetta góða og mikilvæga mál fram. Líkt og fram kom í máli hv. þingmanns áðan er það núna lagt fram í 16. sinn. Það er raunar alveg ótrúlegt að við skulum enn þurfa að standa hér og mæla fyrir þessu frumvarpi því að þegar þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland var samþykkt í þessum sal mótatkvæðalaust var í þeirri þingsályktunartillögu tekið fram í einni greininni að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu. Í rauninni ætti þetta mál því að vera fullfrágengið og löngu komið fram frá ríkisstjórn sem partur af þjóðaröryggisstefnunni. En úr því að svo er ekki þá segi ég bara: Ekkert mál, við mælum hér fyrir þessu frumvarpi og nú er aldeilis lag að samþykkja það.

Kjarnorkumál og kjarnorkuafvopnun eru meðal stóru málanna sem við ættum að setja miklu meiri fókus á vegna þess að kjarnorkuógnin er svo gríðarleg. Það þarf ekki nema eina sprengju til þess að leggja líf á jörðinni í rúst, eins og við þekkjum. Það þarf í rauninni ekki annað en ein mistök. Við höfum flest heyrt af þeirri skelfingu sem það leiddi af sér að kjarnorkusprengjum var varpað á Hírósíma og Nagasaki. Á hverju ári kemur stór hópur fólks saman hér í Reykjavík við Tjörnina til að minnast fórnarlambanna, en talið er að 200.000 manns hafi látist í einu vetfangi þegar þessum sprengjum var varpað.

Það sem hefur gerst síðan þá er að sprengjurnar hafa orðið öflugri, þeim hefur fjölgað og eyðingarmátturinn er því mörgum sinnum meiri, bæði í sprengjum talið og mætti hverrar sprengju fyrir sig. Því miður hefur kjarnorkuveldum fjölgað, þó svo að þeim hafi sem betur fer ekki fjölgað á alveg síðustu árum. Núverandi kjarnorkuveldi, og meðal þeirra verður að sjálfsögðu að nefna mörg af okkar helstu samstarfsríkjum, til að mynda í NATO, hafa verið að endurnýja kjarnorkuvopnabúr sín og eyða í það ótrúlegum upphæðum. Það er líka mikilvægt að minna á það að hernaðarbandalagið NATO, sem við erum því miður aðilar að, áskilur sér rétt til beitingar kjarnorkuvopna að fyrra bragði. Þannig er nú sú samkunda.

Þetta dreg ég fram hérna vegna þess að því miður er enn þá hjá of mörgum ríkjum sú sýn að kjarnorkuvopn séu í lagi, að það sé í lagi að þau séu partur af vopnabúri þjóða. Þess vegna er mikilvægt að við sem áttum okkur á ógninni, sem áttum okkur á mikilvæginu í því að kjarnorkuvopnum verði aldrei beitt, notum öll tiltæk ráð til þess að lýsa andstöðu okkar við vopnin. Að friðlýsa landið sitt og lögsögu þess fyrir umferð kjarnorkuvopna er partur af því.

Þó svo að margt mjög neikvætt hafi verið að gerast í kjarnorkuvopnamálum á undanförnum árum þá hafa líka gerst góðir hlutir. Þar má kannski helst nefna það að kjarnorkuvopn hafa verið bönnuð á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og raunar hefur sú sem hér stendur lagt fram tillögu um að fela ríkisstjórninni að Ísland undirriti og fullgildi samning um að banna kjarnorkuvopn. Þessi samningur var samþykktur á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York 7. júlí 2017 og tók gildi 22. janúar 2001, sem sýnir aftur hvað það er í rauninni skrýtið að hér þurfi að mæla fyrir því að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum. Það er kominn samningur á vegum Sameinuðu þjóðanna sem bannar kjarnorkuvopn. Síðast þegar ég fletti því upp, það var raunar fyrir jól, þá höfðu 86 ríki heims undirritað samninginn og 56 ríki gengið alla leið og lögfest hann, og mig grunar og ég vona að fleiri ríki hafi bæst í hópinn síðan þá.

Það er áhugavert að það eru einungis ríki sem sjálf hafa ekki yfir kjarnorkuvopnum að ráða sem hafa undirritað samninginn, en það er samt ekki ástæða til að örvænta því að það er nákvæmlega með þannig þrýstingi sem önnur gereyðingarvopn hafa verið bönnuð. Það er með því að ríki sem ekki hafa haft yfir til að mynda efnavopnum að ráða hafa gert samninga um að banna slík vopn. Það líður að því að haldinn verði fundur meðal þeirra ríkja sem hafa ákveðið að gerast aðilar að samningnum um að banna kjarnorkuvopn. Því miður verður Ísland ekki meðal fundarmanna þar en okkur býðst að taka þátt þó svo að við séum ekki aðilar að samningnum. Ég veit að ríki á borð við Svíþjóð ætla að taka þátt og einnig NATO-ríkið Þýskaland. Sem betur fer er smám saman að verða vitundarvakning um það að kjarnorkuvopn eiga hvergi að þrífast og að þau fela í sér gríðarlega sóun. Við getum bara nefnt það nú á tímum heimsfaraldurs hversu gott það væri ef við hefðum þá fjármuni til ráðstöfunar til eflingar á heilbrigðiskerfum, til framleiðslu og dreifingar á bóluefni meðal allra þjóða í heimi til að glíma við og takast á við félagslegar afleiðingar og fátækt sem af faraldrinum stafa. Ef við hefðum þessa peninga, þótt ekki væri nema hluta af þeim peningum sem fer í að þróa og viðhalda kjarnorkuvopnum, þá væri heimsbyggðin ansi mikið betur sett. Það sama gildir ef þessir peningar væru settir í umhverfismálin. Ég held hreinlega að ef við myndum bara skipta því jafnt og helmingur af fjármagninu færi í að berjast gegn loftslagsvá og hitt færi í heilbrigðis- og félagsmál, þá værum við með allt annars konar heim.

Ég ætla að vera bjartsýn. Baráttufólk og hugsjónafólk fyrir bættum heimi verður að vera bjartsýnt þannig að ég ætla að vera bjartsýn á að ríkjunum fjölgi sem gerast aðilar að samningi um að banna kjarnorkuvopn og að Ísland verði þar á meðal og að við samþykkjum þetta frumvarp sem við erum að ræða hér, um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og banni við umferð kjarnorkuknúinna farartækja, og þrengjum þannig að þeim þjóðum sem hafa yfir slíkum vopnum að ráða svo þau standi við löngu gerða sáttmála um útrýmingu á kjarnorkuvopnum.

Að því sögðu vona ég að málið fái góða en skjóta meðferð í hv. utanríkismálanefnd, því að líkt og ég sagði áður þá er svona friðlýsing hluti af samþykktri þjóðaröryggisstefnu. Nú þarf því bara að klára það mál að lögfesta friðlýsinguna og halda síðan áfram á þeirri vegferð að úthýsa kjarnorkuvopnum, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim.