153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

fjármögnun heilbrigðiskerfisins.

[15:06]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú er ljóst að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lofað upp í ermina á sér um umbætur í heilbrigðismálum. Ríkisstjórnin rekur ríkisfjármálastefnu sem grefur jafnt og þétt undan grunni heilbrigðiskerfisins. Rúmlega 40 milljarðar kr. hafa verið teknir út úr velferðarkerfinu okkar á síðustu árum til að ráðast í skattalækkanir upp allan tekjustigann. Kerfin verða áfram föst í hjólförum ef marka má fjárlög ríkisstjórnar, rekstrargrunnur háskólasjúkrahúss og heilbrigðisstofnana um land allt er brostinn. Ekkert svigrúm er til frekara aðhalds, ekkert svigrúm til að bæta þjónustuna og stefnir nú í þjónustuskerðingu. Hjúkrunarheimili óháð rekstrarformi eru í vandræðum með ráðningar því að fjármagn hefur ekki fylgt breyttum reglum sem ríkið samdi sjálft um til að bæta vinnutíma fólks.

Heilbrigðiskerfið þolir ekki þá hörðu hægri stefnu sem rekin er í ríkisfjármálunum. Kerfið er að brotna undan stefnu ríkisstjórnarinnar. Endalausir plástrar duga ekki til að taka á risavöxnum áskorunum í heilbrigðis- og öldrunarmálum þjóðarinnar.

Álagsgreiðslur til starfsfólks á höfuðborgarsvæðinu soga fólk af stofnunum á landsbyggðinni, sem þrýstir álaginu aftur yfir á Landspítalann. Háskólasjúkrahúsið missir starfsfólk yfir í einkarekstur. Huga þarf að jafnvæginu, hrópa stjórnendur. Þetta er sama starfsfólkið og mannar bráðaaðgerðir í landinu sem enginn annar getur sinnt. En það virðist enginn vera að fylgjast með stóru myndinni. Kredda í fjármálaráðuneytinu heldur velferðinni í gíslingu. Yfirlýsingar fjármálaráðherra á landsfundi, um áframhaldandi skattalækkanir og þar með niðurskurð í velferð, bæta ekki úr skák og fylgiflokkar Sjálfstæðisflokksins segja ekki neitt. Hæstv. heilbrigðisráðherra segist skilja stöðuna. En það ríkir úrræðaleysi í heilbrigðisráðuneytinu. Fólk gerir ekkert við skilning ef aðgerðir fylgja ekki.

Hvernig ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra að koma okkur upp úr þessum hjólförum með brostnum tekjugrunni sem stendur til að mylja undan enn frekar?