153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

desemberuppbót fyrir öryrkja.

[15:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Senn koma jólin og eru alltaf jafn kær fyrir okkur flest. En því miður á það ekki við um alla. Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn að taka utan um okkar viðkvæmustu hópa og hjálpa þeim fyrir jólin. Síðastliðin jól fengu öryrkjar eingreiðslu upp á 50.000 kr. skatta- og skerðingarlaust sem jóla- og desemberuppbót. Jólabónus í desember. Svo var einnig árið á undan. Nú liggur hins vegar ekkert fyrir. Við settum þetta inn í fjárauka, þetta var óvænt og ófyrirséð en mikið ákall um hjálp og stuðning frá stjórnvöldum.

Mig langar til að beina spurningu til hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra: Hyggst hann beita sér fyrir því að koma til móts við fátækasta fólkið okkar fyrir jólin eins og var gert fyrir síðustu jól og jólin þar áður? Eða hefur kannski ekkert verið um það rætt við ríkisstjórnarborðið? Það er vert að minna á hvers vegna staðan er orðin mun erfiðari og þyngri en hún var t.d. fyrir jólin í fyrra. Fólkið okkar, efnaminnsta fólkið okkar, sem berst í bökkum og gerði það fyrir verðbólgubrjálæðið sem við erum að ganga í gegnum núna, er að taka á sig, eins og við öll hin, 9,4% verðbólgu með öllum þeim ömurlegheitum sem því fylgir fyrir fjölskyldurnar og fólkið í landinu.