153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

málefni hælisleitenda.

[15:23]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Þegar búið er að vísa fólki úr landi þá hefur það fengið málsmeðferð fyrir tveimur stjórnsýslustigum, eins og oft hefur verið rætt um og ástæða er til að endurtaka, annars vegar fyrir Útlendingastofnun og hins vegar fyrir kærunefnd útlendingamála og er því ekki með lögmæta stöðu til að dvelja hér á landi. Margt af þessu fólki fer sjálfviljugt úr landi, áttar sig á því þegar þar að kemur. En svo eru aðrir sem neita því og reyna að draga brottvísunina eins og hægt er og þá verður að beita þvingunaraðgerðum, eins og reglulega er gert og var óvenjumikið í fréttum í síðustu viku. Er eitthvað verið að gera til að draga úr þessum hvötum fólks til að dvelja lengur, draga úr þessum seglum sem draga fólk hingað til lands? Já, það er vissulega verið að reyna að bregðast við því. Í frumvarpinu sem núna liggur fyrir þinginu eru ýmis úrræði sem munu hafa áhrif á þetta. Eftir sem áður munu áskoranirnar verða miklar, virðulegi forseti, í þessum málaflokki af því að það stendur ekki til að fara neitt á skjön við samning Sameinuðu þjóðanna um flóttamenn. Á grundvelli þess samnings eru Úkraínumenn að koma hingað. Við erum reyndar að glíma við óvenjuhátt hlutfall fólks frá Venesúela á grundvelli niðurstöðu kærunefndar útlendingamála. Við erum vissulega að bregðast við því með að reyna að breyta okkar viðmiðunum um það á hvaða grundvelli við veitum þeim vernd. Ég held að það muni færa okkur til jafns við það sem gerist og gengur hjá öðrum Evrópuþjóðum og þá verði ekki Ísland með þennan umframsegul í sínu kerfi sem dregur hingað til lands.

Ályktanir Sjálfstæðisflokksins um helgina eru mjög skýrar. Þær grundvallast á mannúð, sem snýr að samningi Sameinuðu þjóðanna um flóttamenn, og síðan mjög ströngum reglum um það hvernig við ætlum að fylgja verndarkerfinu eftir og vinna sem hraðast úr þeim málum sem á okkar borð koma.