Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[16:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að vekja máls á þessu. Kennarastéttin er ein mikilvægasta stétt landsins og menntun kennara gríðarlega mikilvæg. Hún er gríðarlega mikilvæg á Íslandi og í öllum samfélögum, ekki síst á tímum upplýsingabyltingarinnar. Kennaramenntun þarf að byggja á sterkum, fræðilegum grunni og stjórnvöld eiga að vinna markvisst að því að efla stöðu og virðingu kennara í íslensku samfélagi. Við eigum að horfa þar til ríkja eins og Finnlands. Í því samfélagi er kennaramenntun mjög hátt skrifuð og menntun barna ein sú fremsta í heiminum, allar kannanir benda til þess, PISA-kannanir og aðrar.

Varðandi eitt leyfisbréf þá var markmiðið með því að auka sveigjanleika og flæði kennara milli skólastiga og hvetja til starfsþróunar. Í lögunum var skilgreindur ákveðinn hæfnirammi sem var nýmæli í lögunum en skilgreiningin á hæfni skiptist annars vegar í almenna hæfni og hins vegar hæfni til að gegna tilteknu starfi. Því er starfsþróun alveg gríðarlega mikilvæg fyrir kennara. Ég tel að það sé raunverulega ekki komin nægileg reynsla á núverandi kerfi, en ég tel að stjórnvöld ættu, og hvet hæstv. ráðherra til þess hér, að auka framboð á námi til starfandi kennara svo þeir geti vaxið í starfi og starfsþróun þeirra verði eftir áhugasviði, vilja og getu.

Hér er um grundvallaratriði að ræða en það verður að fást alvöru reynsla á núverandi kerfi. Ég tel að núverandi kerfi, eins og það var sett upp, geti aukið sveigjanleika og það taki tillit til margra annarra þátta en bara prófgráða. Það er mjög mikilvægt og fagnaðarefni að í dag hefur fjölgað í kennaranámi. Ég held þó að enn sé stórkostlegt vandamál í gangi, m.a. varðandi leikskólakennara, og ég tel að hæstv. ráðherra ætti jafnvel að stefna að því að stytta leikskólanámið (Forseti hringir.) aftur í þrjú ár svo við fáum menntaða leikskólakennara. Það hlýtur að vera grundvallaratriði.