Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[16:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Ég held að við hér í salnum séum öll sammála um mikilvægi kennarastéttarinnar, hvort sem horft er til leikskóla-, grunnskóla- eða framhaldsskólastigsins, upp á þroska og viðgang okkar yngstu og bestu einstaklinga. Ég verð að leyfa mér að gagnrýna það aðeins, en nú er komin þriggja ára reynsla á þessa löggjöf, að úttektir á árangri hafi ekki verið fleiri en þær sem hæstv. ráðherra lýsti í svari sínu, almennar starfsánægjukannanir í skólum og þar fram eftir götunum. Það er auðvitað ekki boðlegt í tengslum við svona grundvallarbreytingar. Það eru nokkur atriði sem við þurfum að ræða í samhengi við þetta mál sem ná lengra aftur í tímann. Alveg aftur til þess tíma er leikskólakennaranám var lengt úr þremur árum í fimm. Hv. þm. Eyjólfur Ármannsson kom inn á það áðan að ástæða væri til að skoða hvort gengið hafi verið til góðs með þeim breytingum og ég tek undir að það er nauðsynlegt að fram fari greining á því. Við sjáum til að mynda, ef við skoðum greiningu sem Haraldur Líndal vann fyrir Kópavogsbæ á útgjöldum árið 2021, að meðallaunaútgjöld á hvert stöðugildi eru 14% hærri í grunnskóla en í leikskóla. Það er augljóst að þetta hefur ruðningsáhrif upp úr leikskóla yfir í grunnskólana og svo væntanlega áfram. Það eru auðvitað sjónarmið uppi varðandi það að ekki hafi verið skynsamlegt að kennarar gætu stokkið yfir skólastig, ef svo má segja, að sama leyfisbréfið taki til grunnskólakennslu og kennslu í leikskóla og framhaldsskóla. (Forseti hringir.) Þetta eru sjónarmið sem ég vona að verði núna tekin til ítarlegrar skoðunar vegna þess að það má ekki kasta til hendinni og reyna að lesa árangurinn af þessum breytingum eða afturför út úr ánægjukönnunum sem eru almenns eðlis.