Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[16:27]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og hefur verið hin ánægjulegasta. Ég held að grundvallaratriði í þessu séu aðbúnaður og kjör. Hafandi starfað í grunnskóla þá þykist ég nú þekkja dálítið til þess hvað það er sem skiptir máli. Ég vil segja í ljósi þess sem hér var verið að ræða að það hefur ansi mikið breyst í samfélaginu á síðustu þremur árum. En varðandi það að leikskólakennaranámið eigi að stytta þá er ég algjörlega mótfallin því. Eitt leyfisbréf gengur einmitt út á sambærilegt nám, þ.e. fimm ára nám. Ég tel það bara mjög mikilvægt að þau sem eru að hugsa um yngstu börnin okkar séu líka mjög vel menntuð. Við erum hins vegar með kennara, eins og í öðrum stéttum, sem eru í öðru og skila sér ekki inn í skólastarfið og því þurfum við að breyta. Við þurfum að ná í þetta fólk aftur og það þurfum við að gera með bættum aðbúnaði og með því að bæta kjör og aðrar starfsaðstæður og gefa fólki tíma fyrir starfsþróun. Ég vil endilega benda á vianostra.is, þar má finna upplýsingar um hugmyndafræði og starf Menntaskólans á Tröllaskaga. Þar tóku kennarar sig saman og eru með starfsemi sem snýr að því að efla leik-, grunn- og framhaldsskólakennara en líka Erasmus-samstarf úti í heimi. Það er ótrúlega mikilvægt að kennurum, hvort sem þeir eru á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi, finnist þeir metnir að verðleikum og hafi þetta rúma tækifæri til að hreyfa sig á milli skólastiga, langi þá að gera það, eða bara að bæta sig og efla sig þar sem þeir eru staddir. Ég tel því að þetta sé af hinu góða og ég veit að von er á nýjum tölum varðandi stöðuna í þessum málaflokki og varðandi þessa hreyfingu sem ég vona að komi fram fljótlega.