154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:21]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir svarið. Já, við skulum taka verðmiðann eftir augnablik. En burt séð frá ívilnun sem við sjáum og þekkjum kannski að komi frá öðrum löndum, og hv. þingmaður tiltekur sérstaklega Noreg í því tilviki, þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að við eigum 65. gr. stjórnarskrárinnar sem segir alveg skýrt að það eigi allir að vera jafnir fyrir lögum. Því finnst mér sem lögfræðingi þetta svolítið áhættusamt fordæmi sem á að fara að setja þarna, vegna þess að það eru aðrir og aðrar stéttir sem telja sig eiga sama rétt og eiga að vera jafnir að lögum.

Þannig að nú kemur skemmtilega spurningin til hv. þingmanns: Eigum við ekki bara að sammælast um að fara að gera eitthvað í þessu námslánakerfi, bara almennt, fyrir alla Íslendinga sem vilja mennta sig og sækja hér nám? Og ég hlakka líka til að heyra um verðmiðann því að hann hlýtur að vera svolítið öflugur, ef hv. þingmaður er með sviðsmyndirnar svona nokkurn veginn á hreinu.