154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:22]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil kannski koma að því varðandi niðurfellingu á námslánum í þessu tilviki að læknisfræðinámið er náttúrlega svolítið sérstakt. Það er bara ein deild á Íslandi sem kennir læknisfræði. Þeir sem komast inn í þá deild borga ekki neitt fyrir það nám. Þeir þurfa vissulega námslán til að halda sér kannski á floti en síðan erum við með fjöldann allan af einstaklingum sem getur ekki sótt þetta nám, fer erlendis til Slóvakíu eða Ungverjalands og kemur heim kannski með 20 milljónir á bakinu eftir uppihald þar. Þetta er öðruvísi en viðskiptafræði eða meira að segja lögfræði, þar sem vissulega eru inntökuskilmálar, en það er samt þannig að það er miklu breiðara rými til að komast inn í ákveðið nám.

Varðandi verðmiðann á þessari áætlun: Við erum með ákveðinn verðmiða sem snýr að allri áætlun okkar í heilbrigðismálum sem er í kringum 1% af landsframleiðslu. Verðmiðinn á áætluninni sem snýr að heimilislæknum og að styrkja heilsugæsluna er ekkert ofboðslega hár. Stærsti staki kostnaðurinn í heilbrigðiskerfinu mun snúa að uppbyggingu hjúkrunarrýma og að manna heimahjúkrun. Niðurfelling námslána er vissulega eitthvað sem þarf að horfa til en þetta er ekki það fjölmennur hópur. Ég myndi því segja að sem hlutfall af þessu 1% þá er þetta, held ég, vel innan við 10% í því samhengi.