154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:29]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, auðvitað liggur það alveg fyrir að ef það er undirbúningsvinna í gangi sem hefur ekki litið dagsins ljós þá geta stjórnarandstöðuflokkarnir lítið um það sagt. Það sem við getum hins vegar sagt er að þetta eru ekki tillögur sem komu upp úr prívat samtali við þrjá aðila innan flokks heldur töluðum við við fjöldann allan af einstaklingum á sjúkrastofnunum, heilsugæslum, fólk sem hefur unnið í heilbrigðiskerfinu og hefur væntanlega m.a. verið boðað á fjöldann allan af fundum í ráðuneytinu. Þetta eru allt áherslupunktar sem koma frá þeim. Það kann að vera að þessi undirbúningsvinna sé eitthvað sem þau eru ekki heldur meðvituð um, en þetta er ósk sem er að koma innan úr samfélaginu. Ég held að það veiti þessum tillögum bara styrk að það eru fleiri flokkar hérna inni sem hafa áhuga á að koma þeim í gegn og ég vek athygli á því, eins og hv. þingmaður veit örugglega mætavel, að vandinn inni í þessum sal og í meiri hlutanum í ríkisstjórninni hefur ekkert endilega alltaf verið tillögur sem komu frá Framsóknarflokknum heldur hvar þær stranda og í hvaða ráðuneyti þær stranda. Þannig að hér erum við líka að tala um að vera með raunsæ markmið varðandi fjármögnun á þessum tillögum og mun Samfylkingin fylgja því fast eftir ef við fáum til þess hlutverk.