154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:32]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurningarnar frá hv. þingmanni. Þetta eru svo sem keimlíkar spurningar og komu hér áðan og að einhverju leyti keimlíkar spurningar sem komu þegar við kynntum okkar útspil, svona: Ja, það er ekkert nýtt þarna, við erum búin að tala um þetta allan þennan tíma. Já, það er enginn ágreiningur um þetta í samfélaginu. Það er hárrétt. Af hverju hefur þá ekki verið ráðist í mörg þessara verkefna? Ég held að það ætti að vera spurningin sem við spyrjum okkur að í þessum sal.

Tilraun okkar í Samfylkingunni með að koma m.a. með þessa þingsályktunartillögu er að sýna að það er hægt að fara skipulega í þessa málaflokka og sýna líka á spilin varðandi kostnað þeirra og fjármögnun. Það hefur vantað. Það er ekki nóg að segja að þetta sé eitthvað sem við erum öll sammála um. Við í Samfylkingunni erum ekkert sérstaklega að leita að málum sem er einhver ofboðslegur ágreiningur um. Við erum að reyna að koma hlutum í framkvæmd. Ég nefndi hér áðan sérnám í héraðslækningum. Þetta var fellt út af borðinu. Fólk er búið að bíða í langan tíma eftir því að þetta sérnám komist aftur af stað. Við erum bara miklir hvatamenn þess að ráðuneytið taki þetta aftur upp úr skúffunni sem það var lagt ofan í. Það er eins með, eins og ég nefndi áðan, húsnæði heilsugæslunnar. Já, það eru allir sammála um það, en það er samt fólk, t.d. fólk sem vinnur í miðbæjarheilsugæslunni, sem starfar í kjallara af því að það fær ekki almennilegar starfsaðstæður. Þetta snýst ekki um að tala um eitthvað sem einhver lagði einhvern tímann fram.

Munurinn á Samfylkingunni og Framsóknarflokknum er að Framsókn er í ríkisstjórn. Samfylkingin er ekki aðili að þessu ríkisstjórnarsamstarfi þannig að það er Framsóknar að reyna að framfylgja þessum atriðum sem þau telja að sé ekki ágreiningur um. Þannig að mín spurning ætti þá kannski frekar að vera til baka: Ef það er ekki ágreiningur um það hér inni og ef Framsókn styður þessa tillögu, af hverju hefur Framsókn ekki í þessi tíu ár sem hún hefur setið í núverandi ríkisstjórn komið þessu í gegn? Þess vegna stöndum við hér og eigum þetta samtal. Ég held að það sé það sem skipti langmestu máli og þetta er það sem Samfylkingin hefur einmitt verið að leggja áherslu á, að við sameinumst um það sem við erum sammála um og framkvæmum það.