154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:37]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir framlagða þingsályktunartillögu og flutning og býð hana hér með velkomna í Framsóknarflokkinn vegna þess að þetta hefur verið á stefnu okkar í 20–30 ár, (Gripið fram í.) og það er ekki bara á stefnu heldur er svo margar af þessum tillögum þegar komnar í framkvæmd.

Ég ætla að byrja á því sem stöllur mínar voru að nefna fyrr í ræðu og það er t.d. með Menntasjóðinn, varðandi ívilnun námsmanna. Það er komið inn í Menntasjóðinn. Í VII. kafla í lögum um Menntasjóð námsmanna eru ákvæði um sértækar aðgerðir sem lúta að tímabundnum ívilnunum við endurgreiðslu námslána við sérstök skilyrði. Þetta höfum við talað um í nokkuð langan tíma. Og það er annað sem við höfum líka talað um í langan tíma og ekki hefur komist til framkvæmda — og það er nú bara því að kenna að við höfum ekki haft hljómgrunn þeirra sem stjórna með okkur en gott að það eru komnir fleiri á vagninn hvað það varðar — og það eru sérstakar ívilnanir hvað varðar tekjuskatt þeirra sem búa á svæðum eins og eru í Noregi. Ég held að við gætum unnið saman frekar að þeim tillögum.

Það segir í VII. kafla laga um Menntasjóð að skv. 28. gr. laganna sé heimilt að bæta við umræddri ívilnun til að bregðast við ástandi þar sem skortur er á menntun einstaklinga á ákveðnum svæðum. Þegar ég fer yfir þessar tillögur get ég ekki verið í andstöðu við þær því að þær eru allar mjög góðar. Þegar ég hugsa til svæða úti á landi sem eru hreinlega læknislaus, og heilu héruðin kannski eða svæði læknislaus, og hvernig við getum unnið í því þá er hér ein tillaga um að styrkja heimilisteymi á heilsugæslum og heimilislækningar. Þessu hefur verið unnið að og ég veit að það er heimilisteymi með hjúkrunarfræðing í forsvari þar sem er ekki fastur heimilislæknir. Ég veit að það er unnið með þetta í því sem er kallað Víkur- og Klausturmódelið; einn læknir sem sinnir báðum svæðum með hjúkrunarfræðing á hvorum stað og öfluga fjarlæknaþjónustu. Þannig að það er verið að vinna með þetta módel. Síðan var náttúrlega á síðasta kjörtímabili unnið með tillögur um að heilsugæslan yrði fyrsti viðkomustaður. Ég veit það t.d. með Heilbrigðisstofnun Vestfjarða að á heilsugæslunni á Ísafirði þá hringir maður inn og fær viðtal við hjúkrunarfræðing, því að maður getur ekki fengið fastan heimilislækni þar og það hefur ekki verið hægt undanfarin 15 ár kannski, og þá er það svona teymi sem tekur við manni og beinir í rétta átt.

Hv. þingmaður talar svolítið um að við eigum að leggja niður þessa verktökulækna en staðreyndin er sú, hvernig sem við lítum á það, að þetta sé kannski ekki mjög gott form, að þetta er að bjarga þessum stöðum úti á landi og þetta er mjög gott fyrirkomulag. Ég held að við megum ekki fara frá þessari hugmyndafræði fyrr en við erum búin að tryggja að við getum fest lækna til búsetu. Það er svo margt annað en umhverfi og framboð á læknum sem breytir því að ekki er hægt að festa þessar stöður úti á landi eða manna þessar stöður og það er líka hvernig ungt fólk sér fyrir sér sína framtíð. Það er erfitt að vera einn læknir í einu héraði og þú ert læknir þegar þú ferð út í búð og þú ert læknir þegar þú ferð í tennis eftir vinnu og þegar þú ferð í skólann með börnin ertu læknir staðarins. Þú ert á sólarhringsvakt. Þannig að ég held að það sé ekki bara ein leið sem tryggir þetta.

En eitt sem hv. þingmaður nefnir, og ég held að það sé mjög góð hugmynd sem þurfi að vinna, er samvinna meðal héraðslækna á svæðum. Vil ég nefna t.d. Snæfellsnes. Þar eru nokkrar heilsugæslustöðvar og þar er kannski einn læknir, ef hann er fyrir, á hverri stöð. Síðan eru náttúrlega fleiri heilbrigðisstéttir eins og hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem gætu þá unnið í teymi og ég held að það þurfi að gera svolítið meira af því. Ég held að það sé vilji til þess því að það er náttúrlega mikilvægt fyrir þessar stöður að vera með bakland.

Það er fleira sem ég vildi koma að. Það hefur verið nefnt hérna áður sérnám í heimilislækningum. Það hefur verið unnið að þessu og aldrei hafa fleiri stundað sérnám í heimilislækningum en nú. Tæplega 100 læknar eru skráðir í námið en til samanburðar voru þeir 38 árið 2017. Þannig að eitthvað hefur nú gerst í tíð Framsóknarflokksins í ríkisstjórn. Frá þeim tíma hafa að jafnaði sjö til átta læknar útskrifast úr sérnáminu ár hvert. En skipað gæti ég væri mér hlýtt og það er ekki bara í ráðuneytinu sem þetta þarf að vinna, það er náttúrlega líka í háskólanum og á Landspítalanum, háskólasjúkrahúsi, og ég veit að það er vinna í gangi þar til að koma að þessu, hvernig er hægt að fjölga læknum. Eins líka í mönnun í fleiri geirum á heilbrigðissviði. Við stöndum líka frammi fyrir því víða úti um land að það vantar ljósmóður, það vantar sálfræðing, það vantar hjúkrunarfræðinga. Nóg er kannski til af þeim sem útskrifast en það er bara hvernig við getum komið þeim út um landið allt.

Ég er bæði að koma hérna upp til að taka undir þessar tillögur og ítreka að þessar tillögur eru víða í farvegi og verið að vinna þær, sumar eru hreinlega komnar á dagskrá og aðrar að líta dagsins ljós. En það er gott að það séu fleiri komnir á vagninn til að vinna þetta með okkur, ekki veitir af, og það er gott að vita að við séum að horfa í sömu átt.