154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[16:50]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Ég veit að það hefur verið bætt inn fjármagni, aukafjármagni, bæði í fjárlögum og með aukafjárveitingum inn í heilbrigðiskerfið. Það voru nú skilaboð frá forstjóra Landspítalans eftir síðustu fjárlög að það vantaði ekki fjármagn. Ég þekki ekki alveg tölurnar en ég veit að það er verið að bæta verulega í núna, aukalega, inn í heilbrigðisþjónustuna. Það hefur verið gert síðustu ár sérstaklega.

Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni að það eru starfsaðstæðurnar úti um land sem hamla því að læknar vilji setjast þar að og heilbrigðisstarfsfólk. En það verður kannski ekki endilega bætt með auknum fjármunum. Það er kannski hægt með samvinnu, eins og varðandi fram komna húsnæðisstefnu, það skiptir líka máli að við séum með nægt húsnæði, að við séum með leikskólapláss. Það eru margir þættir sem við getum bætt án þess að bæta inn sérstökum fjármunum í heilbrigðiskerfið hvað þetta varðar. En þá vil ég sérstaklega nefna þessi dæmi og það hefur nú verið í þeirri húsnæðisstefnu sem hefur verið við lýði og farið eftir síðustu ár, það hefur komist á skrið, að það er verið að byggja miklu meira úti á landi, jafnvel verið að byggja á þeim stöðum sem ekki hefur verið byggt í 20–30 ár. Við erum að tala um á annað hundrað íbúðir úti um landið. Við þurfum að gera betur í þessum málum. Við þurfum kannski að koma á einhverju teymi sem horfir til sveitarfélaganna og sveitarfélögin þurfa kannski að vinna saman á ákveðnum svæðum. Eins og var gert hérna með kennaraskortinn á sínum tíma fyrir 30 árum, þá var farið í ákveðnar aðgerðir hvað það varðaði. Þetta er svona samspil margra þátta sem þarf að vinna að til þess að bæta úr í þessum efnum.