154. löggjafarþing — 25. fundur,  8. nóv. 2023.

þjóðarmarkmið um fastan heimilislækni og heimilisteymi.

19. mál
[17:08]
Horfa

Flm. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi skoðanaskipti. Ég ætla svo sem ekki að lengja þetta mikið en mig langar bara að taka undir, þó kannski ekki orðalagið að fullu leyti en ýmislegt sem hér hefur verið sagt varðandi menntun á okkar fólki. Það er mikilvægt að við séum með ungt fólk sem sækir nám erlendis og fær reynslu en staðreyndin er sú að í ákveðnum stéttum, klínískum stéttum þar sem t.d. reynir á starfsnám og að fólk sé til staðar á meðan það er að sinna sinni menntun, hefur það reynst okkur mjög þungt að missa mikið af fólki erlendis í nám. Það liggur t.d. fyrir að eins og inntakan er í Háskóla Íslands í dag þá byggir hún að miklu leyti á getu Landspítalans, háskólasjúkrahússins, til þess að sinna þessum nemendum. Þetta mikla álag og vanfjármögnun sem hefur verið á Landspítalanum smitar út í getu spítalans til að taka við nemendum. Mín tilfinning hefur ekki verið frá læknasamfélaginu að þau vilji ekki fjölga fólki í læknanámi hér heima. Það er einmitt hið öfuga. En vandinn er þessi fjármögnunarvítahringur sem við erum komin í t.d. á Landspítalanum þar sem skortur á mannafla gerir það að verkum að við náum ekki að vinna upp mannafla sem þarf að koma inn á móti.

Þess vegna skiptir svo miklu máli að eftir allar þessar ræður sem hafa verið fluttar hér, m.a. af hv. þingmönnum Framsóknarflokksins sem vilja meina að það sé í rauninni ekkert að í heilbrigðismálunum nema bara að öll verkefnin eru í gangi og munu einhvern tímann rata út úr ráðuneytinu og fjármögnun er ekki vandamál — það er augljóslega ekki að horfast í augu við það að okkur tekst ekki að manna, m.a. af því að okkur tekst ekki að þjálfa, af því að okkur tekst ekki að fjármagna. Þannig að við verðum að koma okkur saman um það hér inni að fjármagna heilbrigðiskerfið betur til að komast út úr þessum vítahring. Aðeins þannig munum við draga úr þessum vítahring veikinda, mannaflaskorts og fleiri þátta sem valda gríðarlegum rekstrarkostnaði í kerfinu. En ég er ekki með spurningu fyrir hv. þingmann.