132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Stuðningur við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

313. mál
[16:29]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það hefur verið nefnt að sveitarfélög sem eiga eftir að framkvæma þessar úrbætur í fráveitumálum hafa að einhverju leyti trassað þær. En ég held að við ættum ekki að beina sjónum okkar að sveitarfélögunum sem slíkum því þar hefur oft verið mikill vilji til að leysa þessi mál. Það á miklu frekar að beina sjónum að stjórnvöldum, að þau hafi trassað — þá á ég við ríkið — að veita leiðbeiningar og það hefur skort mjög á að minni sveitarfélög sem mörg hver eru í mínu kjördæmi hafi getað áttað sig á hverjar kröfurnar eru. Og ég tel að þegar ráðherra kemur með örlitla upphæð eða um 10 millj. á ári þá eigi að hækka það og jafnvel að fara fram á í meðförum þingsins að þessi upphæð verði hækkuð vegna þess að ég er á því að þessu verði vel varið.

Það hefur verið minnst á að það hafi verið mismunun gagnvart Reykjavíkurborg. Ef skoðað er hvernig þessi fráveitureglugerð hefur verið sett fram þá er augljóst að verið er að gera sömu hreinsunarkröfur til rúmlega 100 þúsund manna borgar til að hreinsa skolpið og til 500 manna samfélags vestur á fjörðum og þá að hreinsa sama hlutfall. Það sjá allir sem fara yfir það með sanngirni að leiðarljósi að það er ekkert vit í þessu. Ég tel að það eigi að skoða þessa reglugerð annars vegar og þessa viðtaka hins vegar, þá t.d. fyrir vestan hvort þeir þurfi sambærilega hreinsun. Eins má þá skoða viðtakann í Reykjavíkurborg, það má vera að það þurfi að rannsaka það hvort hreinsunin hér sé nægjanleg og það megi þá mögulega nota eitthvað af þessum fjármunum í það og þá koma upp enn frekari hreinsunarmannvirkjum. Mér finnst að þegar við tökum þessi litlu skref þá eigum við að vera jákvæð í huga og ég tel jafnvel að ef menn fara í að skoða þessa viðtaka, t.d. annars vegar á Hólmavík og hins vegar hér úti á Sundunum, þá geti það leitt í ljós að það þurfi jafnvel að fara í enn frekari hreinsun hér. Þess vegna geti verið að eitthvað af fjármununum renni hingað á höfuðborgarsvæðið.

En ég ítreka að það er full þörf á þessum fjármunum og ég tel að í rauninni ættu hærri upphæðir að fara í rannsóknir á þessu sviði.